Fara í efni

Óskalög þjóðarinnar í blásarabúningi

Óskalög þjóðarinnar í blásarabúningi

Óskalög þjóðarinnar í blásarabúningi Blásarasveit Tónlistarskólans á Akureyri mun taka þátt í þessum frábæra viðburði. Sunnudaginn 15. nóvember verða haldnir maraþontónleikar í Norðurljósum í Hörpu, þar sem fram koma fjórtán íslenskar skólalúðrasveitir. Tónleikarnir standa yfir frá klukkan ellefu að morgni til klukkan sex að kvöldi með nýrri hljómsveit á hálftíma fresti yfir daginn.

Óskalög þjóðarinnar í blásarabúningi

Blásarasveit Tónlistarskólans á Akureyri mun taka þátt í þessum frábæra viðburði.

Sunnudaginn 15. nóvember verða haldnir maraþontónleikar í Norðurljósum í Hörpu, þar sem fram koma fjórtán íslenskar skólalúðrasveitir. Tónleikarnir standa yfir frá klukkan ellefu að morgni til klukkan sex að kvöldi með nýrri hljómsveit á hálftíma fresti yfir daginn.

Allar hljómsveitirnar verða með íslenska efnisskrá og þema tónleikanna er „Óskalög þjóðarinnar" eftir samnefndum sjónvarpsþætti sem sýndur var á RÚV síðasta vetur. Þannig leikur hver sveit að minnsta kosti tvö lög af þeim 35 lögum sem kepptu um titilinn Óskalag þjóðarinnar. Segja má að þessi lög endurspegli tónlistaráhuga þjóðarinnar allt frá stofnun lýðveldisins árið 1944 til dagsins í dag og því líklegt að allir tónleikagestir fái eitthvað við sitt hæfi á tónleikunum.

Í tilefni af þessum viðburði voru fjölmörg þeirra laga sem kepptu um titilinn Óskalag þjóðarinnar útsett sérstaklega fyrir blásarasveitir og verða nokkur þeirra frumflutt á tónleikunum á sunnudaginn. Að sjálfsögðu mun sigurlag óskalagakeppninnar, „Þannig týnist tíminn" hljóma á sunnudaginn ásamt lögum á borð við Bláu augun þín, Braggablús, Dimmar Rósir, Litla flugan og Jungle Drum. Auk þessara laga mega tónleikagestir eiga von á fjölbreyttu íslensku lagavali.

Hljómsveitirnar sem fram koma á tónleikunum koma víða að af landinu þó flestar séu af höfuðborgarsvæðinu.  Hljómsveitir frá Akureyri og Neskaupstað leggja land undir fót til að taka þátt í skemmtuninni ásamt hljómsveitum frá Reykjanesbæ og Árborg. Alls er áætlað er að um 500 börn og unglingar láti ljós sitt skína í Norðurljósum og geri sitt besta til að gera óskalögum þjóðarinnar sem best skil.

Kynnir á tónleikunum er píanóleikarinn góðkunni Jón Ólafsson sem einmitt sá um óskalagaþáttinn í sjónvarpinu síðasta vetur.

Aðgangur að tónleikunum ókeypis og tónleikarnir eru öllum opnir.

Það eru Samtök íslenskra skólalúðrasveita (SÍSL) sem standa fyrir viðburðinum með stuðningi frá Nótnasjóði STEF-s, Tónastöðinni, Félagi íslenskra hljómlistarmanna og tónskáldasjóði RÚV.

http://harpa.is/dagskra/oskalog-thjodarinnar-i-blasarabuningi