Fara í efni

SPILAFJÖR!

SPILAFJÖR!

Um helgina fór fram heljarinnar strengjamót á Akureyri, sem foreldrafélag strengjasveita TónAk stóð fyrir í samvinnu við skólann.

Aldeilis gekk það vel. Um tvöhundruð strengjanemendur víðs vegar af landinu komu saman og æfðu í fjórum strengjasveitum. Mikinn dugnað sýndu þau og þrautseigju á æfingum! Enda stóð ekki á árangrinum. Á lokatónleikum spiluðu sveitirnar fjórar alls kyns lög og tónverk af hjartans lyst, salurinn var stappfullur, og í lokin troðfylltu krakkarnir einnig sviðið, þegar þau léku öll saman lokalagið. Mikið fjör og góð tónlist - það var sannarlega flott hjá þeim!

Hér var á ferðinni myndarskapur eins og hann gerist skemmtilegastur. Eiga skipuleggjendur mótsins heiður skilinn. Og kæru strengjakrakkar: Mikið var gaman að heyra ykkur spila saman! Fullorðinn tónleikagestur fór heim glaður í sinni, hugsandi "Hvað það er nú gaman þegar fólk spilar tónlist!" Takk fyrir mig.

Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir