Fara í efni

Kennarar

Ásdís Arnardóttir
Kennari
Selló, Suzukiselló, Kontrabassi, Sellókór

Ásdís Arnardóttir eða Dísa Selló er frábær kennari.  Hún kennir á selló, kontrabassa og stjórnar strengjasveitum svo fátt eitt sé nefnt og kennir samkvæmt Suzukiaðferðinni.  Dísu er margt til lista lagt.  Hún spilar með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, er í stjórn Tónlistarfélags Akureyrar og er alltaf að gera eitthvað skemmtilegt hvort sem það er að skipuleggja skólatónleika eða standa fyrir kammertónleikum á Akureyri.  Ásdís var bæjarlistarmaður Akureyrarbæjar árið 2021.

Daniele Basini
Kennari
Klassískur gítar

Daniele Basini er gítarleikari og tónskáld sem hefur starfað við Tónlistarskólann á Akureyri frá 2013.  Hann er fæddur í Róm, á Ítalíu þar sem hann lauk MA og BA í gítar og tónsmíðum en hélt svo til Noregs og lauk Mastersprófi í music performance frá University Agder í Kristiansand.  Daniele hefur haldið tónleika á Ítalíu, Noregi, Danmörku og Íslandi og tónlist hans hefur verið spiluð á Italíu, Noregi og Íslandi.

Daníel Þorsteinsson
Meðleikari
Meðleikur

Daníel Þorsteinsson lauk Burtfarar- og píanókennaraprófi frá Tónskóla Sigursveins 1986 og DM lokaprófi í píanóleik og kennslufræði frá Sweelinck tónlistarháskólanum í Amsterdam vorið 1993. Frá hausti 1993 hefur Daníel kennt við Tónlistarskólann á Akureyri, auk þess að flytja, semja og útsetja tónlist af ýmsu tagi, innanlands sem utan.

Dimitrios A. Theodoropoulos
Kennari
Rafgítar - Jazz

Dimitrios Theodoropoulos fæddist árið 1983 í Aþenu/Grikklandi og ólst upp í Volos þar sem hann hóf sitt tónlistarnám.  Dimitrios útskrifaðist síðar frá The Nakkas School of Music í djassdeildinni í Aþenu árið 2005 sem gítarleikari.  Næstu tvö árin lærði hann kúbskan Tres gítar á Kúbu við ISA (Instituto Superior del Arte).  Dimitrios flutti til Íslands og tók við stöðu tónlistarkennara við Tónlistarskólann á Akureyri árið 2011.  Dimitros er stofnmeðlimur Babybop, er búsettur á Akureyri og á tvo syni með eiginkonu sinni.

Emil Þorri Emilsson
Kennari
Slagverk, Trommusett, Fagstjóri, Blásarasveit

Emil er fagstjóri í rytmískri hljóðfæradeild og slagverksdeild, hann kennir á slagverk og trommusett ásamt því að stjórna blásarasveit B. Hann útskrifaðist úr Tónlistarskólanum á Akureyri 2012 og Konunglega tónlistarháskólanum í Den Haag í Hollandi 2018. Emil leiðir slagverk og pákur hjá Sinfóníuhljómsveit Norðurlands ásamt því að vera meðlimur í kammersveitinni Elju.

Eydís S. Úlfarsdóttir
Kennari
Söngur, Víóla, Suzukivíóla, Strengjasv. 2 og 3

Eydís nam víóluleik við Tónlistarskólann á Akureyri og útskrifaðist af tónlistarbraut MA. Framahaldsnám stundaði hún við Konunglega Concervatorium í Brussel og Concervatorium í Amsterdam. Eydís lagði stund á söngnám í Tónlistarskólanum í Garðabæ og TA. Framhaldsnám í söng stundaði hún í London og söngkennaranám í Söngskólanum í Reykjavík. Eydís hefur starfað sem söng- og víólukennari við Tónlistarskólann á Akureyri frá árinu 2006. Hún hefur verið virkur þátttakandi í tónlistarlífi á Norðurlandi,

Fanney Valsdóttir
Verkefnastjóri skrifstofu

Fanney Valsdóttir er verkefnastjóri skrifstofu. Hún heldur utan um dagleg störf á skrifstofu skólans auk þess að taka þátt í þróun nýrra verkefna, halda utan um innra skipulag skrifstofu og almenna upplýsingamiðlun. Hún er í miklum samskiptum við nemendur, forráðamenn, kennara og stjórnendur skólans. Fanney er með BA í miðlun og almannatengslum og stundar nú meistara nám í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst.

"Ég er nokkurs konar alæta á tónlist og hef gaman af næstum því allri tegund tónlistar. Ég ólst upp á heimili þar sem tónlist og þá sérstaklega söngur við undirleik gítars var partur af lífinu og hef alltaf haft gaman af að syngja. Það eru að mínu mati mikil forréttinda að fá að umgangast daglega svo frábært tónlistarfólk sem kennarar og nemendur eru."

Greta Salóme Stefánsdóttir
Kennari
Rytmískur söngur

Greta Salóme kennir söng í rytmísku söngdeildinni. Hún er með BA og MA gráður í tónlist og kemur fram sem fiðluleikari, söngkona og lagahöfundur. Greta nýtir klassískan bakgrunn sinn til að flytja ýmiskonar tónlist, bæði sem einleikari og einnig sem hluti af hljómsveitum eða sönghópum. Greta Salóme er konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og er jafnframt meðlimur í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Greta hefur í tvígang verið fulltrúi Íslands í Eurovision keppninni.

Hallgrímur Jónas Ómarsson
Kennari
Gítar, Hljóðlist, Skapandi hljóðvinnsla

Hallgrímur kennir á rafgítar og klassískan gítar ásamt því að vera fagstjóri skapandi deildar þar sem hann kennir hljóðlist, skapandi hljóðvinnlsu, kvikmyndahljóð og Ableton.
Hallgrímur lagði stund á gítarnám í Tónlistarskólanum á Akureyri á yngri árum og síðar nám á jazzgítar í Tónlistarskóla FÍH. Einnig hefur hann stundað nám í hljóðtækni við Tækniskólann í Reykjavík þar sem hann útskrifaðist með hæstu einkunn.

Ásamt kennslustörfum hefur Hallgrímur spilað með mörgum þekktum tónlistarmönnum á ýmsum vettvangi og starfað í leikhúsi sem gítarleikari, auk þess annast hljóðupptökur og útsetningar.

Haukur Pálmason
Deildarstjóri og kennari
Hljóðlist, Upptökutækni, Hljóðver, Meðleikur

Haukur Pálmason er deildarstjóri rytmískra og skapandi deilda. Auk þess sér hann um hljóðver tónlistarskólans og kennir hóptíma í hljóðupptökutækni og einkatíma í hljóðlist, en það er það orð sem við notum yfir ýmis konar hljóðversvinnu.

Haukur er menntaður tölvunarfræðingur og hljóðupptökumaður, auk þess að vera með diploma í jákvæðri sálfræði. Haukur hefur starfað sjálfstætt við trommuleik og hljóðversvinnu í yfir 30 ár, í u.þ.b. öllum tegundum tónlistar. Hann hefur alla tíð haft óbilandi áhuga á tónlist og tækni, og finnst afskaplega skemmtilegt að sameina þetta tvennt.

Helena G. Bjarnadóttir
Kennari
Píanó, Meðleikur

Helena Guðlaug Bjarnadóttir nam píanóleik á Siglufirði, Akureyri og lauk svo píanó- kennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1993 og Burtfararprófi ári síðar þar sem kennari hennar var Halldór Haraldsson. Hún sótti einkatíma hjá Halldóri um tíma eftir námið og svo eitt ár hjá prófessor Xiao-Mei Zhu í París. Helena hefur kennt á píanó og unnið við meðleik í tónlistarskólanum á Akureyri frá árinu 2000.

Hjörleifur Örn Jónsson
Skólastjóri

Hjörleifur Örn Jónsson hefur leikið með ýmsum tónlistarmönnum, klassískum og rytmískum bæði hérlendis og erlendis.  Hjörleifur lauk burtfararprófi frá FÍH, hóf framhaldsnám í klassískum slagverksleik við konservatoriumið í Amsterdam og fluttist síðan til Berlínar þar sem hann lauk Mastersgráðu í slagverksleik og tónlistarmenntunarfræðum við Hanns Eisler háskólann.  Hjörleifur lék sem einleikari og í kammerhópum, rak Tónlistarskólann Neue Musikschule Berlin og Hypno Theater Berlin en fluttist til Akureyrar árið 2008 og tók við rekstri Tónlistarskólans á Akureyri.  

Ívar Aðalsteinsson
Kennari
Tónfræði, Fagstjóri

Ég heiti Ívar Aðalsteinsson og kenni kjarnagreinarnar, tónfræði, klassíska hljómfræði, tónheyrn og tónlistarsögu. Kenni líka valgreinarnar rokksögu og kontrapunkt. Er með BM gráðu frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hef alltaf haft gaman af að kenna.

Jakub Kolosowski
Kennari
Píanó, Klarinett

Jakub lauk framhaldsprófi árið 1974 í hljómsveitarstjórn og kórstjórn úr Tónlistarskólanum í Slupsk þar sem aðalhljóðfæri hanns voru píanó og klarínett. Hann lauk MA (Master of Arts) gráðu úr Tónlistarakademíunni í Gdansk árið 1984. Á meðan Jakub var í háskólanámi, kenndi hann á píanó í ýmsum tónlistarskólum í Gdansk. Árið 1980 byrjaði hann að kenna í Kennaraháskólanum í Slupsk, þar sem hann kenndi kórstjórn, vann sem meðleikari og stjórnaði háskólakórnum. Árið 1989 flutti hann til Íslands ásamt fjölskyldunni og settist að á Ólafsfirði, þar sem hann gegndi stöðu skólastjóra Tónlistarskóla Ólafsfjarðar til ársins 2003, vann sem organisti og kórstjóri Ólafsfjarðarkirkju. Jakub byrjaði að kenna í Tónlistarskólanum á Akureyri árið 2003.  Hann kennir á tréblásturshljóðfæri og píanó. 

Jón Þorsteinn Reynisson
Kennari
Harmóníka

Jón Þorsteinn Reynisson harmonikuleikari hóf tónlistarnám sitt í Tónlistarskóla Skagafjarðar, og stundaði síðar nám við Konunglega tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn þar sem hann lauk bakkalárgráðu árið 2015 og meistaragráðu árið 2018.

Jón hefur skipulagt og tekið þátt í hinum ýmsu tónlistarverkefnum hvort heldur sem er í nútímatónlist, klassískri tónlist, tangótónlist eða öðrum tónlistarstefnum. Hann er nú sjálfstætt starfandi tónlistarmaður, og tónlistarkennari við Tónlistarskóla Eyjafjarðar og Tónlistarskólann á Akureyri.

Jón er meðlimur í íslenska harmonikutríóinu ítríó, sem spilað hefur víða í Evrópu við góðan orðstýr, og lauk Advanced post-graduate diplómu í september 2022 frá Konunglega tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn.

Kjartan Ólafsson
Kennari
Horn

Kjartan Ólafsson stundaði hornnám hjá Roar Kvam við Tónlistarskólann á Akureyri og síðar Tónmenntaskólann á Akureyri þaðan sem hann lauk 8. Stigs og burtfararprófi árið 1994. Hann stundaði ennfremur nám á náttúruhorn hjá Ellu Völu Ármannsdóttur við Tónlistarskólann á Akureyri á árunum 2014-2016. Hann hefur leikið með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands allt frá stofnun hennar árið 1992.

Kristján Edelstein
Kennari
Gítar, Rafgítar, Hljómsveit,

Kristján Edelstein er fæddur í Freiburg, Þýskalandi þann 18. ágúst 1962 og hefur haft tónlist að aðalstarfi síðan árið 1981. Kristján stundaði klassískt nám á gítar og píanó í Tónlistarskóla Reykjavíkur og síðar rafgítarnám við Berklee College of Music í Boston. Ungur varð Kristján landskunnur gítarleikari og starfaði með þekktum hljómsveitum, auk þess að leika inn á fjölda hljómplatna fyrir þjóðþekkta tónlistarmenn. Kristján hefur sömuleiðis tekið þátt í flutningi og gerð tónlistar fyrir kvikmyndir, leikhús og sjónvarpsþætti. Síðustu árin hefur Kristján einnig séð um útsetningar, upptökur, hljóðblöndun og hljóðfæraleik á ýmsum hljómplötum, auk þess sem hann hefur sinnt tónlistarkennslu við Tónlistarskólann á Akureyri um árabil þar sem hann sinnir gítarkennslu og liðbeinir nemendum í skapandi hljóðvinnslu. 

Lidia Kolosowska
Kennari
Píanó, Suzukipíanó, Meðleikur, Fagstjóri

Lidia Kolosowska lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Gdansk í Póllandi árið 1979 undir handleiðslu Elzbietu Sokolnicka. Sama ár hóf Lidia nám við Tónlistarakademínuna í Gdansk þar sem aðalkennari hennar var professor Krystyna Jastrzebska. Þaðan lauk hún meistaraprófi í píanóleik árið 1984. Strax eftir námið starfaði hún sem píanókennari við Kennaraháskólann í Slupsk. Árið 1989 flutti Lidia til Íslands ásamt fjölskyldu sinni og starfaði sem píanókennari við Tónskóla Ólafsfjarðar og Tónlistarskóla Dalvíkur áður en hún kom til starfa í Tónlistarskóla Akureyrar árið 2003. Lidia er suzuki píanókennari og undirleikari.

Ludvig Kári Forberg
Kennari
Rytmísk tónfræði, Jazzpíanó, Hljómborð

Ludvig Kári Forberg kennir rytmíska tónfræði, hljómborð og píanó. Hann er útskrifaður úr Berklee College of Music og Boston University í jazzvíbrafónleik og tónfræðum og hefur verið virkur sem tónlistarmaður og kennari til fjölda ára á Íslandi sem og í Bandaríkjunum. Ludvig Kári gaf út frumsamdar tónsmíðar sínar á geisladisknum Rákir er kom út 2020 en einnig komu Rákir út á hljómplötu 2021. Fyrir utan hljóðfæraleik og tónsmíðar er tónfræði og sér í lagi hljómfræðahluti tónfræða hans helsta ástríða.

Magna Guðmundsdóttir
Kennari
Fiðla, Suzukifiðla

Magna Guðmundsdóttir er fiðlukennari /Suzukifiðlukennari. Hún er einnig menntaður grunnskóla- og tónmenntakennari og er með meistarapróf í menningarmiðlun. Hefur starfað við Tónlistarskólann á Akureyri frá árinu 1982 til dagsins í dag með smá hléum þó. Sinnt ýmsum verkefnum í skólanum gegnum árin, verið deildastjóri, aðstoðarskólastjóri og fiðlukennari. Var framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands í nokkur ár. Kennir í dag á fiðlu og er einnig með yngstu nemendurna í hóptímum.

Margrét Árnadóttir
Kennari
Söngur, Hringekja, Tónheyrn

Margrét hóf söngnám við Tónlistarskólann í Mosfellsbæ og hélt því söngnámi áfram á Akureyri þar sem hún lagði stund á kennaranám við Háskólann þar í bæ. Hún lauk burtfararprófi frá söngskólanum í Reykjavík vorið 2001 og framhaldsnámi ó söng frá Ljóða- og Óratoríudeild sem og Óperudeild Tónlistarháskólans í Vínarborg árið 2003. Að loknu námi starfaði hún hjá Piccolo-óperunni í Stuttgart. Hún flutti svo aftur heim til Íslands og starfaði sem grunnskólakennari í nokkur ár og hóf svo störf við Tónlistarskólann á Akureyri 2014.  Margrét hefur gefið út hljómplötur, heldur reglulega einsöngstónleika og syngur með Kammerkór Norðurlands.  

Marteinn Jakob Ingvason Lazararz
Kennari
Fiðla , Suzukifiðla
Ég heiti Marteinn Jakob Ingvason Lazarz, er fæddur 1975 og er fiðlukennari og fidluleikari.
Ég hóf störf hjá TONAK árið 2000 en hjá Tónlistar skólanum Eyjafjardar árid 2001.  Byrjadi i fiðlunámi 6 áran og kláraði students próf bæði á fiðlu og píanó árid 1994 og lauk svo háskóla námi árið 2000 frá Music Academy of Katowice I Póllandi með mastersgráðu í einleik á fiðlu og fiðlukennslu.  Ég er líka med Suzuki kennslu réttindi.  Kennarar minir voru Lilja Hjaltadóttir Og Anna Podhajska.  Starfid mitt hér á Akureyri er mjög gefandi, spennandi og skemmtilegt og ég hlakka alltaf til að sjá nýja nemendur í strengjahópinn okkar.;) 
Michael Devin Weaver
Kennari
Saxófónn, Klarinett

Sem tónlistarmaður hef ég leikið í Evrópu, Asíu, Norður-Ameríku (Mexíkó, Kanada og 37 ríkjum Bandaríkjanna), m.a. fyrir Bandaríkjaforseta, á 10 ára starf að baki á Broadway Söngleikjum í New York og lék 1. klarinettu í All-American College Orchestra.  Fyrrum nemendur hafa verið samþykktir í Julliard, Manhattan School of Music, New England Conservatory, U. of Miami, Indiana U., North Texas, "Grammy High-school band," og NYO Jazz.  Mér finnst bæði mjög gaman að vinna með byrjendum og lengra komnum.

Ólafur Sveinn Traustason
Kennari
Forskóli

Ég er fæddur og uppalinn Hafnfirðingur en hef verið búsettur á Akureyri síðan árið 2011. Tónlist hefur verið stór hluti af mínu lífi alla tíð en ég byrjaði að sinna henni þegar ég fékk gítar í jólagjöf 11 ára gamall. Síðan þá hef ég lært á gítar í Tónlistarskóla Eddu Borg, upptökustjórn í Tónvinnsluskóla Þorvaldar Bjarna, framhaldsnám frá skapandi tónlist í Tónlistarskóla Akureyrar . Ég hef samið tónlist frá ca 15 ára aldri og hljóðritað hluta af því eða um 20 lög. Gefið út plötu sem innihélt 12 lög eftir mig og einnig gaf ég út nótnabók með 20 lögum úr mínu lagasafni sem var hluti af námi mínu í skapandi tónlist. Nú er ég að kenna forskóla í Tónlistarskóla Akureyrar og finnst það stórkostlega gaman . Einnig kenni ég í Tónræktinni en er annars í fullu starfi hjá Norðurorku.

Páll Barna Szabó
Kennari
Píanó, Fagott
Petrea Óskarsdóttir
Kennari
Þverflauta

Petrea Óskarsdóttir lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1989. Hún fór síðan til Frakklands og stundaði framhaldsnám við Conservatoire National de Region í Versölum.  Petrea hefur starfað sem tónlistarkennari í rúm þrjátíu ár, m.a. í Tónskóla Sigursveins, Tónmenntaskólanum í Reykjavík og lengst af í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar áður en hún flutti norður. Petrea leggur áherslu á að halda góðu samstarfi við flautukennara um allt land og hún kom á fót árlegum Flautudegi á Norðurlandi sem vettvang fyrir samspil og samveru norðlenskra flautunemenda og -kennara.  Petrea er virk í íslensku tónlistarlífi og kemur oft fram á tónleikum bæði sem einleikari og í ýmiskonar kammartónlist hérlendis sem erlendis. Hún er fastur meðlimur Íslenska flautukórsins og einn af þrem flautuleikurum Aulos Flute Ensemble. https://www.aulosflutes.com. Auk þess leikur hún með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.

Risto Laur
Meðleikari
Rytmískt píanó, Klassískur og Rytmískur meðleikur

Risto Laur er sannkallaður galdrakarl hvort sem það er í flutningi klassískrar eða rytmískrar tónlistar.  Risto er fæddur í Eistlandi þar sem hann lauk mastersnámi í klassískri tónlist og starfaði sem konsertpíanisti um nokkurra ára skeið en hefur síðan lagt stund á jazz og rytmíska tónlist.  Hann fluttist til Íslands árið 2010 og er nú meðleikari við skólann, bæði í klassískri og rytmískri deild.

Rodrigo dos Santos Lopes
Kennari
Trommur

Rodrigo Lopes er tónlistarkennari í tónlistarskólum á Akureyri. Þar kennir hann trommu- og slagverksleik. Sem tónlistarmaður er Rodrigo Lopes fjölhæfur en mesta rækt hefur hann lagt við ýmis afbrigði af tónlist Rómönsku Ameríku.

Sigrún Magna Þórsteinsdóttir
Kennari
Orgel

Sigrún Magna Þórsteinsdóttir stundaði tónlistarnám í Tónlistarskólanum á Akureyri, Tónlistarskólanum í Reykjavík, við Tónskóla þjóðkirkjunnar og í Konunglega danska tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn. Þaðan lauk hún meistaraprófi í kirkjutónlist undir handleiðslu prof. Bine Bryndorf. Sigrún hefur starfað sem organisti og kórstjóri í Reykjavík, í Kaupmannahöfn og á Akureyri. Sigrún starfar nú sem organisti við Akureyrarkirkju og við Möðruvallaklausturskirkju í Hörgárdal ásamt því að kenna við Tónlistarskólann á Akureyri.

Sóley Björk Einarsdóttir
Kennari, hljómsveitastjóri og fagstjóri
Málmblástur, Blásarasveit, Tónfræði

Sóley Björk Einarsdóttir er fagstjóri blásaradeildar Tónlistarskólans á Akureyri og kennir á ýmis málmblásturhljóðfæri. Þar að auki stjórnar hún A og C blásarasveitum við Tónlistarskólann.Sóley lauk framhaldsnámi í klassískum trompetleik frá Royal Conservatory of The Hague í Hollandi ásamt tveimur aukagráðum í kennslufræði og barokktrompetleik. Einnig er hún meðlimur Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og kammersveitinni Elju. Sóley byrjaði að kenna við Tónlistarskólann haustið 2018 og leggur mikinn metnað í að styrkja starf blásara á Akureyri. „Í kennslunni legg ég áherslu á að vekja áhuga nemenda, finna hvaða leiðir henta þeim svo þeir nái árangri og að gleðin sé ekki langt undan. Í námi sem ekki er skyldunám skiptir miklu máli að nemandanum líði vel og það sé gaman til þess að hann haldi áfram og nái árangri. Það er ótrúlega gaman og ómetanlegt að sjá nemendur blómstra í hljómsveitarstarfinu, bæði félagslega og á hljóðfærinu sínu“

Stefán Daði Ingólfsson
Kennari
Rafbassi, Hljómsveitir

Stefán Daði Ingólfsson er frábær kennari.  Hann stundaði nám við Tónlistaskóla FÍH og Musicians Institute í Los Angles og hefur starfað við Tónlistaskólann á Akureyri frá árinu 2003.  Stefán hefur spilað með hinum ýmsu hljómsveitum s.s. Súld,JJ Soul band, Mór og Tregasveitinni auk þess að hafa starfað í söngleikjauppfærslum hjá Leikfélagi Akureyrar.

Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir
Deildarstjóri og kennari
Selló, Forskóli, Solféges
"Ég byrjaði að læra á selló þegar ég var fjögurra ára. Stundum langaði mig ekki að æfa mig, en ég gerði það samt, og hef alltaf verið mjög glöð yfir því, því það er gaman að geta spilað og samið tónlist.
 
Ég lærði helling í tónlist, á Íslandi, í Svíþjóð og í Frakklandi. Í Frakklandi spilaði ég mjög mikla barokktónlist. Hér á Akureyri fæst ég við alls konar - sinfóníska tónlist, barokktónlist, þjólagatónlist, nútímatónlist... - bý til lög og ljóð, syng og spila á selló, og kenni klárum krökkum í tónó. Mikið stuð!"
Tomasz Kolosowski
Kennari
Fiðla, Suzukifiðla, Strengjasv. 1, Fagstjóri

Tomasz kom til starfa haustið 2010 og hefur kennt á á fiðlu á hefðbundinn hátt og samkvæmt Suzuki aðferðinni. Hann lauk BA (Bachelor of Arts) gráðu í fiðluleik árið 2009 og MA (Master of Arts) gráðu árið 2011 frá Tónlistarakademíunni í Gdansk í Póllandi. Tomasz kennir einkatíma, Suzukihóptíma, stjórnarstrengjasveit 1 og er fagstjóri í strengjadeild. Hann er meðlimur í Sinfóníhljómsveit Norðurlands og Sinfonianord.  

Una Björg Hjartardóttir
Aðstoðarskólastjóri - Kennari
Aðstoðarskólastjóri, Grunnsveit, Þverflauta

Una Björg Hjartardóttir lauk blásarakennaraprófi við Tónlistarskólann í Reykjavík vorið 2000. Hún hóf störf við Tónlistarskólann á Akureyri 2001 og hefur kennt þar á þverflautu, klarinett, saxófón, í forskóla og stjórnað blásarasveitum. Una Björg var deildarstjóri 2014-2019 og hefur verið aðstoðarskólastjóri frá 2019. Auk þess að starfa við tónlistarskólann hefur hún leikið með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og fleirum. 

Vilhjálmur Ingi Sigurðsson
Kennari
Trompet

Vihjálmur lærði á trompet frá 9 ára aldri við Tónlistarskólann á Akureyri og við Tónlistarskóla Eyjafjarðar, fór í framhaldsnám við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk Einleikaraprófi og Blásarakennaraprófi árið 2003.  Þaðan lá leiðin til Noregs nánar tiltekið í Norges Musikhögskole og lauk þaðan Bachelor prófi árið 2005, síðan til  Finnlands í Sibeliusarakademíuna í Helsinki og lauk þaðan Mastersprófi árið 2008. Hann kann því nokkur tungumál og finnsku þar með talið.

Þórarinn Stefánsson
Píanókennari - Fagstjóri Píanódeildar
Píanó, fagstjóri
Þórarinn Stefánsson lauk kennara- og einleikararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1987 og stundaði framhaldsnám í Hannover í Þýskalandi. Hann hefur komið fram á fjölda tónleika víða um Evrópu sem einleikari og meðleikari með söngvurum og hljóðfæraleikrurum. Þórarinn hefur gert upptökur fyrir sjónvarp og útvarp m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Árin 2007 og 2014 hlaut hann starfslaun listamanna. Tveir geisladiskar hafa komið út með leik Þórarins: „Ísland“ þar sem hann leikur íslensk þjóðlög og „Rætur“ með verkum eftir Erik Satie, Oliver Kentish og Kolbein Bjarnason. Þá hefur Þórarinn staðið fyrir umfangsmikilli útgáfu nótnabóka.
Þórhildur Örvarsdóttir
Kennari
Rytmískur söngur, CVT, Fagstjóri

Þórhildur er fagstjóri í rytmískri söngdeild, hún kennir söng í rytmísku söngdeildinni og skapandi deildinni auk þess sem að leiða undirbúningsdeild söngdeilda og kenna CVT hóptíma. Þórhildur lærði söng við Tónlistarskólann á Akureyri og Tónlistarskóla FÍH og lauk einsögnvaraprófi frá Söngskólanum í Reykjavík árið 2000. Hún lauk söngvara- og söngkennaraprófi úr Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn 2008. Auk þess er hún með mastersgráðu í miðaldafræðum frá Háskólanum í Aberdeen. Hún hóf störf við Tónlistarskólann á Akureyri 2013 og hefur starfað þar síðan. Sem söngvari hefur Þórhildur komið víða við og hefur hún komið fram á tónleikum og gefið út plötur hér heima og erlendis, bæði sjálf og í ýmsum samstarfsverkefnum. Þess utan hefur hún sungið inn á fjölda kvikmynda, sjónvarpsþátta og tölvuleikja.