Fara í efni

Saga skólans

Hljómsveit AkureyrarTónlistarskólinn á Akureyri hóf starfsemi sína 20.janúar 1946.  Tónlistarfélag Akureyrar, sem stofnað var 1943, hafði m.a. haft á stefnuskrá sinni að stofna og reka tónlistarskóla.  Stefán Ágúst Kristjánsson var einn helsti hvatamaður að stofnun Tónlistarfélags Akureyrar árið 1943 og síðar Tónlistarskólans, og var hann formaður Tónlistarfélags Akureyrar um aldarfjórðungsskeið.
Hljómsveit

Áður hafði Músíkfélag Akureyrar stofnað tónlistarskóla með sama nafni, sem starfaði aðeins um eins og hálfs árs skeið á árunum 1922 -1924 undir leiðsögn og stjórn þýska píanóleikarans, Kurt Häser.  Vel má vera að árangur af starfi þess skóla hafi ýtt undir stofnun núverandi skóla tuttugu og tveimur árum síðar.  Haustið 1945 hafði Tónlistarfélag Akureyrar auglýst eftir kennara og nemendum fyrir sinn nýja tónlistarskóla, en Karlakórinn Geysir hafði þá einnig unnið að stofnun tónlistarskóla, og höfðu þeir keypt húseign frímúrara við Hafnarstræti er þeir nefndu Lón. Því var ákveðið að músíkfélög og kórar bæjarins sameinuðust um stofnun skólans og stofnað var í þeim tilgangi rekstrarfélag, Tónlistarbandalag Akureyrar, skipað fulltrúum Tónlistarfélags Akureyrar, Karlakórsins Geysis, Karlakórs Akureyrar, Lúðrasveitar Akureyrar og Kantötukórs Akureyrar.  Rekstrarfélagið átti að vera ábyrgt fyrir rekstri og stjórnun skólans.  Skólinn starfaði sem sjálfseignarstofnun allt til ársins 1986, með þeirri breytingu að fulltrúi Akureyrarbæjar tók sæti í stjórninni árið 1971 sem formaður, en þá hafði um nokkurra ára skeið verið einum manni færra í stjórninni, eða eftir að Kantötukór Akureyrar hætti störfum. Árið 1986 tók Akureyrarbær alfarið við rekstri og stjórn skólans með sérstakri skólanefnd sem skipuð var fulltrúum stjórnmálaflokka í bæjarstjórn. Árið  1998 var yfirstjórn skólans sett undir skólanefnd grunnskóla Akureyrar, eins og fram kemur í reglugerð skólans samþykktri af  bæjarstjórn Akureyrar 28. apríl 1998.Magnús Einarsson

Skólinn hefur starfað samfleytt síðan hann var settur í fyrsta skipti sunnudaginn 20. janúar 1946. Þá hafði Margrét Eiríksdóttir, píanóleikari og kennari, verið ráðin sem skólastjóri og á þessu fyrsta starfsári, sem aðeins stóð í liðlega 4 mánuði, var 27 nemendum kennt á píanó , auk hliðargreina, t.d. tónfræði og kynning á tónverkum. Þórarinn Björnsson, síðar skólameistari MA, var fyrsti formaður skólastjórnar og lauk hann orðum sínum við fyrstu setningu skólans með eftirfarandi tilvitnun í Völsungakviðu:  „ Hnigu heilög vötn af himinfjöllum“. Kvaðst hann vona að er tímar liðu mætti heimfæra tilvitnunina upp á þau áhrif sem þessi skóli hefði á tónlistarlíf og menningu bæjarins. Það er öllum ljóst sem þekkja til hinna jákvæðu áhrifa skólans í  menningar- og tónlistarlífi bæjarins að áðurnefnd tilvitnun á vel við. Margrét gegndi skólastjórastarfi í fjögur ár. Kennsla við Tónlistarskólann á Akureyri tók frá upphafi mið af Associated Board stigakerfinu enska og  var fyrstur skóla á landinu til að taka það upp sem prófkerfi 
Lúðrasveit Á Akureyri

Jakob Tryggvason orgelleikari tók formlega við skólastjórn af Margréti árið 1950 og gegndi því starfi til loka skólaárs 1973 – 1974, en Soffía Guðmundsdóttir var ráðin skólastjóri 1972 – 1973, er Jakob fékk starfsleyfi.  Jón Hlöðver Áskelsson var skólastjóri Tónlistarskólans 1974-1982. Atli Guðlaugsson gegndi  starfinu 1982 – 1984 þegar Jón Hlöðver tók við skólastjórastarfi á ný eftir leyfi og gegndi því til 1991.  Kristinn Örn Kristinsson leysti Jón Hlöðver af vegna veikinda skólárið 1989 – 1990 og Roar Kvam 1990-1991.  Michael Jón Clarke var settur skólastjóri 1991-1992.  Haustið 1992 var Guðmundur Óli Gunnarsson ráðinn skólastjóri og gegndi hann  því starfi um fimm ára skeið að undanskildu hálfu ári sem hann var í leyfi og leysti Michael Jón Clark hann af.  Á árunum 1997-1999 var skólastjóri Atli Guðlaugsson en haustið 1999 var Helgi Þ. Svavarsson ráðinn til starfa.  Hjörleifur Örn Jónsson tók síðan við stöðu skólastjóra árið 2008.
Lúðrasveit

 Á starfstíma Jakobs fjölgaði nemendum úr 50 í 250 og á árunum 1974 til 1980 fjölgaði nemendum úr 250  í 550. Þessa fjölgun má að hluta skýra vegna stofnunar forskóladeildar þar sem grunnatriði tónlistar eru kennd ungum nemendum á leikrænan hátt í hóptímum. Einnig var lögð mikil áhersla á samleiks- og hljómsveitauppbyggingu, sem skilaði ótvíræðum árangri og gerði skólann eftirsóknarverðari.
Gítar

 Í strengjadeild hófst um 1980 kennsla á fiðlu samkvæmt Suzuki aðferðinni og mikill vöxtur var í uppbyggingu strengja- og blásarasveita. Í blásaradeild var m.a. innleidd stigskipt blásarasveitakennsla þar sem meginmarkmiðið var að byggja upp góðar blásarasveitir. Þetta tókst með eftirtektarverðum hætti þar sem D-sveitin, sú blásarasveit sem lengst var kominn, vann til verðlauna í virtum erlendum blásarasveitasamkeppnum, m.a. vann sveitin gullverðlaun í heimskeppni blásarasveita í Kerkraade í Hollandi 22. júlí 1989. Leikur sveitarinnar var tekin upp og gefinn út á geisladisk.
Blásarasveitir

 Árangur mikillar hljómsveitaþjálfunar nemenda leiddi m.a. til stofnunar Kammerhljómsveitar Akureyrar sem starfrækt var á árunum 1986 – 1993 og hélt um tuttugu sinfóníska tónleika en hljómsveitin var að stórum hluta skipuð nemendum sem bestum árangri höfðu náð á sín hljóðfæri ásamt kennurum skólans. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hóf starfsemi sína haustið 1993 og er arftaki Kammerhljómsveitarinnar og hafai kennarar og nemendur við Tónlistarskólann ásamt tónlistarmönnum á Norðurlandi myndað kjarna þeirrar hljómsveitar.  Hefur hljómsveitin starfað í náinni samvinnu við Tónlistarskólann.
Kammersveit Akureyrar

 Árið 1983 hófst kennsla í jazzdeild sem síðar breyttist í alþýðutónlistardeild. Í nokkur ár var fullskipuð stórsveit starfrækt við skólann.  Deildin fékk nafnið ritmísk deild í tíð Hjörleifs Jónssonar og með tilkomu ritmískrar námskrár árið 2011 margfaldaðist nemendafjöldinn í deildinni. 
Blaðagrein

Mikil eftirspurn eftir tónlistarnámi til stúdentsprófs varð til þess að þróuð var tónlistarbraut við skólann og hófst starfsemi hennar árið 1976 í samstarfi við Menntaskólann á Akureyri.  Útskrifuðust fyrstu nemendur af tónlistarbraut vorið 1979. Haustið 2000 var boðið upp á listnámsbraut í Verkmenntaskólanum á Akureyri m.a. í samvinnu við Tónlistarskólann.  Töluverður hluti þessara nemenda lauk háskólanámi í tónlist að loknu stúdentsprófi og snéri síðan aftur til starfa á svæðinu en samkvæmt lauslegri samantekt árið 1998 höfðu meira en eitt hundrað nemendur frá Tónlistarskólanum á Akureyri haft hljóðfæraleik eða tónlistarkennslu að aðalstarfi um lengri eða skemmri tíma og má gera ráð fyrir að sú tala hafi stækkað verulega síðustu tvo áratugi.  Með styttingu framhaldsskólans í þrú ár skrifaði skólinn nýja námskrá í samræmi við framhaldsskólalög í samvinnu við framhaldsskólana á svæðinu og frá árinu 2017 stóð nemendum til boða að ljúka stúdentsprófi í tónlist með allt að 114 einingum í tónlistarhluta og 96 eininga kjarna í viðkomandi menntaskóla.  Er námsleiðin sérstaklega ætluð nemendum sem hyggjast leggja stund á tónlist sem aðalstarf í framtíðinni.
Gítarnemendur

Tónlistarskólinn átti í góðu samstarfi um nokkurra ára bil við Háskólann á Akureyri um menntun tónmenntakennara og útskrifuðust nemendur úr þeirri námsbraut sem hófu störf í grunnskólum á svæðinu.  

 Árið 1998 var ákveðið af bæjarstjórn Akureyrar að færa forskóla Tónlistarskólans út í grunnskóla bæjarins en þá hafði staðið yfir um tveggja ára skeið tilraunakennsla í einum grunnskólanum.  Tónmenntakennarar skólanna ásamt kennurum frá Tónlistarskólanum hafa séð um  þessa kennslu. Tónlistarskólinn þróaði síðar fjöldaþátttökuverkefni og tónlistarforskóla fyrir alla grunn- og leikskólanemendur bæjarins og eftir flutningana í Hof óx þeirri starfsemi fiskur um hrygg þegar nemendur grunn- og leikskóla fengu að taka þátt í vikulegum söngsölum í grunnskólunum undir handleiðslu tónlistarkennara og tóku síðan þátt í tónleikum í Hofi við undirleik nemenda og kennara Tónlistarskólans ásamt frægum söngvurum og listamönnum.  Allt frá árinu 1991 hefur hljóðfærakennsla færst í auknum mæli út í grunnskólana þar sem Tónlistarskólinn hefur fengið kennsluaðstöðu. 

Hátíð íslenskrar píanótónlistar var haldin á vegum skólans í maí 1992.  Þátttakendur í hátíðinni voru af öllu landinu,  píanónemendur, kennarar, píanóleikarar og íslensk tónskáld. Í tilefni hátíðarinnar var gefin út bókin “Íslensk píanótónlist” sem dr. Marek Podhajski ritstýrði en hann var frumkvöðull þess að hátíðin var haldin. 
SÖNGVARAR

Tónlistarskólinn sendi fjóra þátttakendur í píanókeppni EPTA sem haldin var í Salnum í Kópavogi í nóvember 2000.  Sigraði einn af nemendum skólans í sínum flokki. Nemendur skólans hafa einnig tekið reglulega þátt í Nótunni, uppskeruhátíð tónlistarskóla og hl0tið þar fjöldamörg verðlaun.  Skólinn hefur hýst svæðiskeppni Nótunnar í Hofi fyrir Norð-, Austurland og árið 2018 var tekin ákvörðun um að lokakeppni Nótunnar yrði haldin í Hofi í fyrsta sinn.  Skólinn hóf formlegt samstarf við Þjóðlistahátíðna Vöku árið 2016 og nutu nemendur starfskrafta Dr. Guðrúnar Ingimundardóttur, aðstoðarskólastjóra þegar þeim stóð til boða að taka þátt í fjölbreyttum námskeiðum um þjóðtónlist og þjóðlagaarf undir handleiðslu frægra listamanna. 

Haustið 2000 hófst  kennsla í íslenskri tónlistarsögu og einnig kennsla í kammermúsik við skólann.  Á árunum 2011 - 2015 mótaði skólinn nýjar aðferðir við námsmat sem byggja á auknum samskiptum kennara, nemenda og foreldra, einstaklingsmiðuðum matsaðferðum, símati og sjálfsmati.  Kennarar skólans hafa í gegnum tíðina verið afar virkir í stefnumótun og skólaþróun og taka mikinn þátt í skipulagi og framkvæmd skólastarfs.  Árið 2017 hóf skólinn kennslu í skapandi tónlist og skrifaði nýja námskrá fyrir þá grein.   Skólinn hóf einnig samstarf við markþjálfunarfyrirtækið Happy Bridges sem aðstoðaði við að innleiða hugmyndafræði markþjálfunar með það að markmiði að auka ábyrgð nemenda á eigin námi.    Tónlistarskólinn á Akureyri hefur sett mikinn svip á bæjarlífið og hafa kennarar og nemendur skólans verið bakhjarl þess öfluga tónlistarlífs sem hefur blómstrað í bæjarfélaginu áratugum saman.
SÖNGVAFLÓÐ

.