Fara í efni

Þorgerðarsjóður

Þorgerður S. Eiríksdóttir lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum á Akureyri og var nýkomin til London í framhaldsnám er hún lést af slysförum í febrúar 1972.

Ári síðar stofnuðu aðstandendur Þorgerðar, ásamt Tónlistarskólanum og Tónlistarfélagi Akureyrar, minningarsjóð til að styðja við bakið á efnilegum nemendum frá Tónlistarskólanum á Akureyri til framhaldsnáms.   Allir núverandi og fyrrverandi nemendur skólans sem stunda, eða eru á leið í framhaldsnám, hafa kost á því að sækja um styrk úr sjóðnum þar sem tónlistarnám getur verið kostnaðarsamt fyrir unga nemendur sem þurfa oftar en ekki að flytjast búferlum til að stunda nám sitt og í mörgum tilfellum út fyrir landssteinana.  Sjóðurinn átti afar erfitt uppdráttar eftir efnahagshrunið 2008 og var ekki úthlutað úr sjóðnum í um 15 ár.  Árið 2024 hafði sjóðurinn þó náð sér eitthvað á skrið og ákvað stjórn sjóðsins því að hefja úthlutanir að nýju. 

Árlega heldur skólinn sérstaka minningar- og styrktartónleika þar sem fram koma lengst komnu nemendur skólans. Aðgangur að tónleikunum er ókeypis en tekið er við frjálsum framlögum í sjóðinn og hefur viðburðurinn verið ein helsta tekjulind sjóðsins í gegnum áratugina.  Sjóðurinn tekur einnig við frjálsum framlögum og selur minningarkort á vefsíðu sinni.  Þeir sem hafa áhuga á því að styrkja unga tónlistarmenn til náms geta smellt á myndina hér fyrir neðan eða notað QR kóðann til að leggja okkur lið.