Fara í efni

Umsóknaferli

Verklagsreglur vegna inntöku nemenda

Tekið er við nýjum umsóknum fyrir næsta skólaár á hverju vori til og með 1. maí.

Að umsóknarfresti loknum er unnið úr umsóknum og nemendaplássum úthlutað fyrir næsta vetur. Allir nemendur verða að endurnýja umsóknir sínar innan auglýsts umsóknarfrests ef þeir vilja halda námsplássi frá fyrra ári. Nemendur sem eru á biðlista verða einnig að endurnýja umsókn sína árlega ef þeir vilja vera áfram á listanum.  Nemendur sem hafa verið lengi á biðlista eiga besta möguleika á því að fá inngöngu í skólann.

Eiga þeir forgang sem stundað hafa nám við skólann áður og eins getur verið tekið tillit til nemenda sem hafa stundað tónlistarnám annars staðar áður.  Reynt eftir fremsta megni að verða við óskum um námsvist nemenda með þroskaraskanir eða aðrar greiningar þar sem sýnt þykir að námið geti haft jákvæð áhrif á líðan eða þroska.  Umsækjendur eru hvattir til að taka slíkt fram í athugasemdadálki umsóknareyðublaðsins þar sem það getur aukið líkur á námsvist í einhverjum tilfellum.  

Að lokinni umsókn fá umsækjendur staðfestingu í tölvupósti sem þeir eru vinsamlegast beðnir um  að geyma þar til nemandi hefur fengið inngöngu í skólann.

Þegar ljóst er hverjir hafa fengið námsvist eru send út bréf til þeirra með upplýsingum um kennara.  Þeir sem ekki hljóta námsvist fá höfnunarbréf en lenda á biðlista.   Að lokinni nemendaúthlutun er opnað fyrir umsóknir á ný og lenda þeir nemendur sem þá sækja um á biðlistanum. Ef nemendapláss losna á haustin eru teknir inn nemendur af biðlistanum.  Það sama má segja um janúarmánuð þegar mögulegt er fyrir nemendur að ljúka námi skv. samningi.

Vegna niðurskurðar á framlögum sveitarfélagsins til skólans er ekki unnt að verða við öllum umsóknum um skólavist og getur bið eftir vinsælum hljóðfærum eins og fiðlu, píanó og gítar í sumum tilfellum verið allt að tvö ár.  

Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér Viðskiptaskilmála Tónlistarskólans vel áður en umsókn er send.

Nemendur með lögheimili utan Akureyrar

Nemendur sem vilja stunda grunn- eða miðnám í hljóðfæraleik* við Tónlistarskólann á Akureyri, en eru ekki með lögheimili á Akureyri þurfa að fá samþykki sveitarfélags síns um að greiða kennslukostnað TA. Þegar nemendur með lögheimili annars staðar en á Akureyri sækja um nám í TA þá sendir Tónlistarskólinn beiðni til viðkomandi sveitarfélags um að borga kennslukostnaðinn. Ef það fæst samþykkt þá er nemandinn tekinn inn í skólann. Sum sveitarfélög hafa sett sér ákveðnar reglur varðandi tónlistarnám nemenda utan síns sveitarfélags svo við ráðleggjum þeim sem vilja stunda tónlistnám vil TA að leita þangað eftir frekari upplýsingum.

*Ef nemandi er á framhaldsstigi í hljóðfæraleik eða mið- eða framhaldsstigi í söng, þá sér ríkið um að borga kennslukostnaðinn.

Viðskiptaskilmálar vegna samnings um nám við Tónlistarskólann á Akureyri


Gjaldskrá skólans er háð ákvörðunum bæjarsjóðs um gjaldskrárhækkanir. Tónlistarskólinn á Akureyri áskilur sér rétt til hækkunar skóla- og hljóðfæraleigugjalda á samningstímanum í samræmi við ákvarðanir bæjarsjóðs.

Skólagjöld tónlistarskólans eru greidd fyrir eina önn í einu en til hagræðingar fyrir greiðendur dreifast greiðslur skólagjalda á 4 jafnar greiðslur fyrir hverja önn með gjalddaga ca. 15. ág., 15.sept., 15. okt., 15. nóv. fyrir haustönn og gjalddaga 15. jan., 15. feb., 15. mars, 15. apríl fyrir vorönn.

Upplýsingar um einstaka liði gjaldskrár má finna hér fyrir neðan.

Einungis er mögulegt að segja upp samningi einu sinni á ári, frá og með áramótum og rennur uppsagnarfrestur fyrir vorönn út 1. nóvember ár hvert. Til þess að uppsögn sé gild verður að segja samningi upp skriflega með tölvupósti á netfangið tonak@tonak.is. Uppsögn á námi telst ekki gild nema hægt sé að sýna fram á tölvupóst henni til staðfestingar.

Nemendur sem fá skólavist en ákveða að hætta við fyrir upphaf skólaárs þurfa að tilkynna það skriflega fyrir 1. ágúst með tölvupósti á tonak@tonak.is. Ef skrifstofu berst ekki tölvupóstur um afsögn fyrir þann tíma er umsækjandi skuldbundinn til að greiða skólagjöld fyrir haustönn.

Undantekning frá þessu eru nemendur í framhaldsnámi á hljóðfæri og nemendur í mið og framhaldsnámi í söng. Þessir nemendur geta ekki sagt upp námi og skólavist þeirra er bundin fyrir allt skólaárið með þessari umsókn.

Strengja, blásara- og hljómborðsslagverksnemendum sem og ákveðnum gítarnemendum stendur til boða að sækja um hljóðfæraleigu og verður skólinn við þeirri ósk ef mögulegt er. Skólinn áskilur sér þó rétt til að hafna umsókn um hljóðfæraleigu ef ekki er hægt að finna hljóðfæri við hæfi í safni skólans. Hljóðfæraleigugjald er innheimt í september fyrir tímabilið sept - maí og í júní er innheimt sumarleigugjald fyrir tímabilið júní - ágúst. Samningurinn er ótímabundinn og ber að segja honum upp fyrir 15.maí ár hvert. Ákvæði um hljóðfæraleigu í viðskiptaskilmálum þessum taka gildi strax og nemandi hefur sótt um hljóðfæraleigu og/eða fengið leiguhljóðfæri í hendur. Uppsögn á hljóðfæraleigu tekur gildi um leið og hljóðfæri er skilað. Hljóðfæraleigugjald fæst ekki endurgreitt. Þeir umsækjendur sem hafa hakað við og undirgengist hljóðfæraleigu fá afhent hljóðfæri í upphafi skólaárs. Tónlistarskólinn skal sjá til þess að hljóðfærið henti nemandanum og sé í góðu ásigkomulagi þegar það er afhent. Ef skemmdir verða á leiguhljóðfærum í vörslu nemenda eða forráðamanna skuldbinda umsækjendur hljóðfæraleigu sig til að bæta tjónið að fullu skv. mati viðurkenndra hljóðfæraviðgerðamanna. Umsækjendum er bent á að mögulegt er að tryggja hljóðfæri í þeirra umsjón hjá öllum helstu tryggingarfélögum.

Tónlistarskólinn á Akureyri áskilur sér birtingar- og dreifingarrétt á öllu því hljóð- og myndefni sem tekið er upp af nemendum skólans á viðburðum sem skólinn stendur fyrir sem og í kennslustundum. Birtingarétturinn nær til vefsíðu skólans, útgáfu DVD, CD diska, vefútgáfu sem og annars kynningarefnis. Mynd- og hljóðupptökur gerðar af nemendum á tónleikum eða í kennslustundum eru eign tónlistarskólans. Hægt er að fara fram á undanþágu frá reglu þessari með tölvupósti á tonak@tonak.is fyrir 1. september.

Tónlistarskólinn á Akureyri áskilur sér rétt til þess að afla upplýsinga hjá grunnskólum Akureyrarbæjar varðandi fyrirliggjandi greiningar vegna þroskaraskana, námsörðugleika eða annarra sérþarfa nemenda sem sótt hafa um námsvist í skólanum. Farið verður með allar upplýsingar sem aflað er með þessum hætti sem trúnaðargögn. Hægt er að fara fram á undanþágu frá reglu þessari með tölvupósti á tonak@tonak.is fyrir 1.september.

Tónlistarskólinn mun reyna að verða við sérstökum óskum eftir fremsta megni en áskilur sér einhliða rétt til að ákvarða um kennara eða kennslustað í samræmi við aðstæður hverju sinni.

Með því að senda inn umsókn í Tónlistarskólann á Akureyri samþykkir umsækjandi þá skilmála sem birtast í skjali þessu sem og gjaldskrá skólans og taka skilmálarnir gildi strax og umsækjandi hefur fengið staðfestingu á námsvist.

Gjaldskrá

 

 

           SENDA INN UMSÓKN