Tónfræðigreinar


(Hægt er að nálgast stundaskrár með því að smella hér)
Við Tónlistarskólann á Akureyri er öflug tónlistarkennsla. Kenndir eru eftirfarandi áfangar:

 • Tónæði í 3. bekk
 • Solféges fyrir 4.og 5. bekk (2 ár)
  Solféges fyrir 6. bekk og eldri byrjendur (1 ár)
 • Grunnnám G 1 (áður tónfræði 2)
 • Grunnpróf G 2 vetur (áður tónfræði 3)
 • Miðnám 1. ár (áður tónfræði 4)
 • Miðnám 2. ár (áður hljómfræði 1 og tónheyrn 1) Tekið er samræmt miðpróf á vegum Prófanefndar Tónlistarskóla að loknum þessum áfanga.
 • Miðnám 1. ár rytmískt 1 tími
 • Miðnám 2. ár rytmískt 2 tímar, Samkvæmt aðalnámskrá verður samræmt miðpróf á vegum Prófanefndar Tónlistarskóla að loknum þessum áfanga í náinni framtíð.
 • Framhaldsnám 1.-3.ár (áður hljómfræði og tónheyrn 2 - 4)
 • • Kontrapunktur (valgrein í framhaldsnámi)
 • • Tónlistarsaga I-II (framhaldsnám)
 • • Íslensk tónlistarsaga (valgrein í framhaldsnámi)
 • • Hljómsveitarval (valgrein í framhaldsnámi)

Nemendum ber skylda til að stunda nám í tónfræði samhliða hljóðfæra-/söngnámi. Nemendur sem komnir eru í 4. bekk fara í solfeges. Í 6-7. bekk fara nemendur í tónfræði. Hver áfangi er kenndur 1 klst. í viku þar til í Miðnámi á 2. ári þá eru það 2 klst. á viku, og miðað er við, að til að ljúka framhaldsprófi í tónfræðagreinum liggi 7-8 ára nám að baki.

Tónæði
Í Tónæði eru stigin fyrstu skrefin í tónfræðanámi við Tónlistarskólann.
Námið er byggt upp á leik, söng og hreyfingu og er mikil áhersla lögð á
það að koma til móts við áhuga, þroska og þarfir nemendanna.  Þeir
nemendur úr 3. bekk sem eru skráðir til náms í Tónlistarskólanum á
Akureyri hefja sjálfkrafa nám í Tónæði en einnig er hægt að skrá sig
sérstaklega í Tónæði námið í gegnum Tónlistarskólann á Akureyri.

Tónæði:


Meginmarkmiðin með tónæði kennslu Tónlistarskólans á Akureyri eru:

 • að vekja áhuga á tónlist almennt
 • að veita nemendum grunnþjálfun í tónlistariðkun
 • að kynna fyrir nemendum undirstöðuatriði í tónfræði og tónheyrn

Undirmarkmið:

 • Að loknu eins árs námi í tónæði skulu nemendur hafa náð eftirfarandi markmiðum: (Miðað er við að nemendur í hóp, fái  45 mínútur á viku).

Viðhorfa markmið:

 • Nemendur hafi jákvætt viðhorf til tónlistar, geri sér grein fyrir gildi hennar í daglegu lífi og geti nýtt hana sér til ánægju og yndisauka.

Þekkingarmarkmið:

·    Nemendur þekki eftirfarandi tóna, nótnagildi og þagnir:

 • c´- c´´ á nótnastreng í C-dúr, heil-, hálf-, fjórðaparts- og áttundapartsnótur ásamt samsvarandi þögnum. (Nema áttundapartsþögn).  Kunni að nota taktmál.  (Ta, títí o.s.frv.)
 • Þekki hugtökin bjart, (hátt) dimmt, (djúpt) hratt, hægt, sterkt, veikt, minnkandi styrkur, vaxandi styrkur og helstu blæbrigði eins og glaðlegt og dapurlegt, staccato og legato.
 • Þekki táknin G-lykil og kynnist f-lykli og c-lykli, taktstrik, lokastrik, endurtekningarmerki, taktvísana 2/4, ¾ og 4/4, styrkleikamerki frá pp-ff og táknin fyrir cres og dim.
 • Geti greint einföld form t.d. ABA og AABA á nótnablaði og eftir heyrn.
 • Nemendur þekki helstu hljóðfæraflokka af myndum og eftir heyrn.
 • Nemendur geri sér grein fyrir ólíkum blæbrigðum tónlistar frá mismunandi heimshlutum.
 • Nemendur þekki, skilji og geti sungið do – re – mi og do – mi – so og geti sungið dúr tónstiga.
 • Nemendur þekki og skilji muninn á dúr og moll.
 • Nemendur þekki og skilji hrein tónbil uppí fimmund.

 

Leiknimarkmið:

Söngur:
Nemendur geti sungið lög á takmörkuðu tónsviði áreynslulaust.

 • Skólahljóðfæri og aðrir hljóðgjafar:
 • Nemendur geti spilað púls, hryn og einföld þrástef og geti ennfremur beitt mismunandi hraða, styrkleika og blæbrigðum.

Hreyfing:

 • Nemendur geti túlkað mismunandi hraða, styrk, tónhæð og blæbrigði.
 • Geti gengið púls og klappað hryn.

 

Solfeges

Solfeges er aldagömul aðferð til að kenna og þjálfa tónheyrn og söng beint af blaði. Þetta er hið svokallaða do re mi kerfi og er kennt víðast hvar í Evrópu. Kennslustundin er 40 mínútur á viku og er ætluð nemendum í 4. og 5. bekk (2 ár) og öllum byrjendum í 6. bekk og eldri (1 ár)


Meginmarkmiðin með solféges kennslu Tónlistarskólans á Akureyri eru:

 • að þekkja, skilja og geta notað solféges kerfið (do re mi)
 • að efla tónheyrn nemenda
 • að efla nótnalestur og hrynþjálfun nemenda
  Undirmarkmið:
 • Að loknu 2 ára námi í solféges skulu nemendur hafa náð eftirfarandi markmiðum: (Miðað er við 6-7 nemendur í hóp í 40 mínútur á viku).

Viðhorfa markmið:

 • Nemendur hafi jákvætt viðhorf til tónlistar, geri sér grein fyrir gildi hennar í daglegu lífi og geti nýtt hana sér til ánægju og yndisauka.
 • Nemendum finnist eðlilegt að syngja einsöng og klappa rytma fyrir framan aðra.
 • Nemendur skilji tilgang þess að læra kjarnagreinar og tengi það við hljóðfæranámið.

Þekkingarmarkmið:
Eftir 1 ár:

 • Þekki táknin G-lykill og kynnist f-lykli og c-lykli, taktstrik, lokastrik, endurtekningarmerki, taktvísana 2/4, ¾ og 4/4.
 • Þekki c-dúr tónstigann og solféges nöfnin við hann

c´- c´´ á nótnastreng í C-dúr, hálf-, fjórðaparts- og áttundapartsnótur ásamt samsvarandi           þögnum. (Nema áttundapartsþögn).

Eftir 2 ár:

 • Þekki taktvísinn 6/8 og punkteraða áttundupartsnótu og samsvarandi þögn.
 • Þekki a-moll tónstigann og solféges nöfnin við hann.

Leiknimarkmið:
Söngur og heyrn:

Eftir 1 ár:

 • Nemendur geti sungið lög á takmörkuðu tónsviði hreint og áreynslulaust.
 • Nemendur geti sungið eftir nótum, laglínur frá do – la fyrst í stað saman en undir lok vetrar eitt og eitt litla búta.
 • Nemendur geti skrifað laglínu m. rytma

Eftir 2 ár:

 • Nemendur geti sungið eftir nótum, laglínur frá la – mi
 • Nemendur geti sungið heila laglínu ein

Hreyfing:
Eftir 1 ár:

 • Nemendur geti klappað hryn og takt

Námsefni:
Rytmísk Tónfræði-Miðnám 1 og 2
Kennsla í rytmískri tónfræði á miðstigi.  Tveir hópar, 1 klukkustund í senn einu sinni í viku 1.ár og tvær klukkustundir 2. ár.
Kennd er rytmísk tónfræði skv. nýrri námsskrá menntamálaráðuneytisins er kom út í haust og er um að ræða samþætt nám er byggir á hefðbundnum grunni tónfræðanáms en með sérstakri áherslu á þætti tónfræða og tónheyrnar er lúta sér í lagi að rytmískri tónlist. Áhersla er á jazzhljómfræði og hagnýta notkun hennar til spuna en einnig á tónheyrn, hlustun og þau almennu tónfræðiatriði er ekki var lokið í grunnnámi.

Tónfræði - Grunnnám
Táknmál tónlistarinnar útskýrt og nemendur þjálfaðir í nótnaritun, tónheyrn, söng eftir nótum, taktþjálfun, hlustun og greiningu. sköpun o.fl. Þá eru hljóðfæri kynnt og mism. blær þeirra. Nemendur vinna og skila verkefnum hér að lútandi og taka grunnpróf í tónfræði í lok námstímans. Hluti námsins er valverkefni sem getur verið t.d. tónsmíð, eða ritgerð.  Kennt er í hóptímum. Venjulegur námstími er 1 kennslustund á viku í tvö ár og kallast áfanginn fyrra árið G1 og  seinna árið G2. Tekið er lokapróf að vori í hvorum áfanga þar sem lokaprófið í G2 er fyrrnefnt grunnpróf.Tónfræði - Miðnám
Tónfræði miðstigs er beint framhald af tónfræði grunnnáms og skilyrði er að hafa lokið grunnprófinu. Haldið er áfram með þau atriði sem byrjað var á í grunnnáminu með meiri áherslu á hlustun og greiningu. Þá er einnig farið í  undirstöðuatriði hljómfræði og stutt ágrip af tónlistarsögu. Hluti námsins er valverkefni sem getur verið t.d. tónsmíð, vefsíða eða ritgerð.  Við lok miðnáms er tekið samræmt próf frá prófanefnd tónlistarskóla. Kennslan fer fram í hóptímum. Venjulegur námstími er  tvö ár.  Á fyrra árinu er kennd ein kennslustund á viku og kallast sá áfangi M1. Á seinna árinu eru kenndar tvær samliggjandi kennslustundir á viku og kallast sá áfangi M2. Tekið er lokapróf að vori í hvorum áfanga  og er lokaprófið í M2 fyrrnefnt samræmt miðpróf.Tónfræði – Framhaldsnám
Tónfræði framhaldsnáms er beint framhald af tónfræði miðnáms og skilyrði er að hafa lokið miðprófinu. Námið skiptist í aðalatriðum í hljómfræði, og tónheyrn sem kennd eru í aðskildum tímum. Í hljómfræði farið í þríhljóma og tengsl þeirra  og hljómhvörf, og smám saman bætt við sjöundarhljómum, aukaforhljómum, aukaminnkuðum hljómum, napólíhljómi og stækkuðum sexundarhljómum og hljómleysingjum. Hluti námsins er tónsmíðaverkefni þar sem tónfræði- og hljómfræðiþekkingin er notuð í skapandi verkefni.
Venjulegur námstími er ein kennslustund  á viku í þrjú ár. Áfangarnir kallast eftir árum: Hljómfræði F1, hljómfræði F2 og  hljómfræði F3. Tekin eru bæði miðsvetrar- og vorpróf í hverjum áfanga.

Í tónheyrn er takt- og tónskyn nemandans þjálfað og hæfni hans þroskuð til að greina það sem hann heyrir.  Mikið er lagt upp úr söng, hrynlestri, hljómheyrn, hljómsöng og ýmsum diktatæfingum. Kennslan fer fram í hóptímum.

Venjulegur námstími er ein kennslustund  á viku í þrjú ár. Áfangarnir kallast eftir árum:  Tónheyrn F1,  tónheyrn F2 og  tónheyrn F3. Tekin eru bæði miðsvetrar- og vorpróf í hverjum áfanga.Tónlistarsaga I - II

Námið skiptist í 2 áfanga sem hvor um sig er kenndur á einum vetri. Aðeins annar áfanginn er kenndur í senn en nemendur geta byrjað á hvorum sem er. Í Tónlistarsögu I er kynnt vestræn tónlist fram til 1750 og í Tónlistarsögu II tónlist eftir 1750. Í kennslunni er mjög mikið lagt upp úr hlustun. Tónlistarsagan er kennd í hóptímum, tvær samliggjandi kennslustundir á viku.
Nemendur á tónlistarbraut og þeir sem ljúka framhaldsprófi á hljóðfæri eða í söng þurfa að ljúka báðum tónlistarsöguáföngunum. Tekin eru bæði miðsvetrar- og vorpróf í hvorum áfanga.

 

Áfangar í tónfræðigreinum - lágmarkseinkunn
Hver áfangi í tónfræðigreinum nær yfir heilt skólaár. Vegna sérástæðna  hjá sumum nemendum getur þó verið hentugra að hann ljúki ákveðnum áfanga á tveimur skólaárum og fari þá aftur í sama áfanga og hann var í árið áður.
Við lok hvers áfanga í tónfræðigreinum eru tekin vorpróf. Til að standast það próf þarf að lágmarki að ná einkunninni 6. Fái nemandi einkunn milli 5 og allt að 6 getur hann fengið að taka upptökupróf og reyna aftur að ná að lágmarki 6.

Nái nemandi ekki einkunninni 5 á upphaflega prófinu eða einkunninni 6 á upptökuprófinu þarf hann að fara aftur í viðkomandi áfanga.
Standist nemandi ekki próf er ekki skráð einkunn hjá honum en haft samband við hann eða forráðamenn hans og honum gerð grein fyrir stöðu mála.

Valgrein - Íslensk tónlistarsaga
Ekki er um eiginlegt námskeið að ræða en nemendur hitta kennara c.a. 4 sinnum á kennsluárinu og skrifa undir hans leiðsögn ritgerð c.a 20 bls. með efni úr íslenskri tónlistarsögu


Valgrein - Kontrapunktur fyrir byrjendur
Farið er í aðferðir við kontrapunkt frá tímum J.S Bachs, hvernig bæta má rödd við aðra sem er gefin, fyrst nótu á móti nótu, og síðan fleiri nótur á móti nótu og grunnreglur í sambandi við það. Ennfremur skoðaður kontrapunktur í invensjónum eftir Bach. Nauðsynlegt er að nemendur hafi lært töluvert í hljómfræði áður en þeir fara í þetta námskeið.

Valgrein - Hljómsveitaraðstoð
Nú býðst nemendum í framhaldsnámi nýr valáfangi sem kallast “hljómsveitaraðstoð og útsetningar”. Áfanginn felur í sér að aðstoða nemendur í hljómsveitum Tónlistarskólans á æfingum. Við þetta öðlast nemendur reynslu af kennslu og hljómsveitarstarfi. Einnig munu nemendur aðstoða við að umskrifa/útsetja parta eftir þörfum. Skila þarf ritgerð í lok vorannar og er efni valið í samráði við deildarstjóra eða aðstoðarskólastjóra Tónlistarskólans á Akureyri.  Ritgerðin þarf að vera að lágmarki 1000 orð, 1.5 línubil og leturstærð 12 punktar. Skila þarf ritgerð í síðasta lagi 2 vikum fyrir skólaslit.