Tónfræðigreinar

 

Solféges  

Solfeges er aldagömul aðferð til að kenna og þjálfa tónheyrn og söng beint af blaði. Þetta er hið svo kallaða do re mi kerfi og er kennt víðast hvar í Evrópu. Kennslustundin er 30 mínútur á viku og er ætluð nemendum í 4. og 5. bekk (2 ár) og öllum byrjendum í 6. bekk og eldri (1 ár) 

Megin markmiðið með solféges er að kenna nemendum að þekkja, skilja og nota solfégest kerfið til að efla tónheyrn sína og skilning á tónum, takti og og nótnalestri. 

 

Grunnnám í tónfræði, G1 og G2. 
Mjög æskilegt er að nemandi hafi lokið grunnþjálfun í tónheyrn (solféges) þegar hann byrjar námið.  

Táknmál tónlistarinnar er útskýrt og nemendur eru þjálfaðir í nótnaritun, tónheyrn, söng eftir nótum, hrynlestri, hlustun og greiningu, sköpun o.fl. Þá eru hljóðfæri kynnt og mismunandi blær þeirra. Hluti námsins er valverkefni sem getur verið t.d. tónsmíð, eða ritgerð. Kennt er í hóptímum. Venjulegur námstími er 1 klst. á viku í tvö ár og kallast áfanginn fyrra árið G1 og seinna árið G2. 

Markmiðið er að nemendur öðlist leikni í að syngja og klappa einfaldar 4 takta laglínu og hryndæmi, greina og syngja öll tónbil innan áttundar, skrifa upp alla dúra og molla í G- og F-lykli og merkja þá inn á hljómborð, sem og alla frumhljóma. Enn fremur þurfa þeir að geta tónflutt einfaldar laglínur, greint einföld form eftir heyrn og þekkja algengustu ítölsk orð. 

Námsmat: Nemendur taka próf og skilaverkefnum. Tekið er lokapróf í G2 að vori og er það Grunnpróf í tónfræði. 

 

Miðnám í tónfræði, M1 og M2 
Tónfræði miðnáms er beint framhald af tónfræði grunnnáms og skilyrði er að hafa lokið grunnprófinu. Haldið er áfram með þau atriði sem byrjað var á í grunnnáminu með meiri áherslu á hlustun og greiningu.  

Markmiðið er að nemendur geti greint og öðlist leikni í að vinna með kirkjutóntegundir auk dúr- og molltóntegunda, tónbil stærri en áttund, tónflutning, mismunandi gerðir þríhljóma, heimahljóma, tón- og hljómhvörf.  Enn fremur að ná færni í söng- og nótnalestri þar sem  punkteringar, tríólur og samsettur taktur koma við sögu. Þá kynnast nemendur helstu tímabilum tónlistarsögunnar og tengslum tóndæma við þau og ýmsum öðrum atriðum eins og takti, tónlit hljóðfæra, gerð tónverks o.s.frv. sem greind eru eftir heyrn.  

Kennslan fer fram í hóptímum. Venjulegur námstími er  tvö ár.  Á fyrra árinu er kennd ein kennslustund á viku og kallast sá áfangi M1. Á seinna árinu eru kenndar tvær samliggjandi kennslustundir á viku og kallast sá áfangi M2.  

Námsmat: Nemendur taka próf og skila verkefnum. Að vori seinna árið þreyta nemendur lokaprófið í M2 sem er samræmt miðpróf í tónfræði frá prófanefnd tónlistarskóla.  

 

Framhaldsnám í tónfræði, F1 og F2 
Tónfræði framhaldsnáms er beint framhald af tónfræði miðnáms og skilyrði er að hafa lokið miðprófinu áður en framhaldsnámið hefst.  

Kennt er í hóptímum og námið skiptist í aðalatriðum í tvær námsgreinar, hljómfræði og tónheyrn, sem kenndar eru samhliða en í aðskildum tímum.  Venjulegur námstími í hvorri grein er ein kennslustund á viku.  

Í hljómfræði er farið í þríhljóma, tengsl þeirra og hljómhvörf. Smám saman er bætt við sjöundarhljómum, aukaforhljómum, aukaminnkuðum hljómum, napólíhljómi, stækkuðum sexundarhljómum og hljómleysingjum. Einnig verður farið í grunn atriði kontrapunkts. Hluti námsins er tónsmíðaverkefni þar sem tónfræði- og hljómfræðiþekkingin er notuð í skapandi verkefni.  

Í tónheyrn framhaldstigs er markmiðið að efla takt- og tónskyn nemandans og hæfni hans til að greina það sem hann heyrir. Enn fremur að efla leikni nemandans í söng- og hrynlestri, hljóm- og skalaheyrn og að skrá tónlist á nótum eftir heyrn. Áhersla er á tvíradda söng.  

Námsmat: Nemendur taka próf og skila verkefnum. Að vori seinna árið taka nemendur framhaldspróf í tónfræði. 

Saga klassískrar tónlistar I og II 
Til að stunda nám í tónlistarsögu þurfa nemendur að lágmarki að hafa lokið grunnprófi í tónfræði og helst miðstigi. Námið skiptist í tvo áfanga sem hvor um sig er kenndur á einum vetri. Saga I fjallar um klassíska tónlist fram að rómantíska tímabilinu (til ca. 1820); Saga II fjallar um klassíska tónlist frá rómantíska tímabilinu og fram á 20. öld. Aðeins annar áfanginn er kenndur í senn en nemendur geta byrjað á hvorum sem er.  

Námið miðar að því að nemendur öðlist haldgóða innsýn í sögu vestrænnar klassískrar tónlistar. Farið er í alla helstu strauma og stefnur og stíl þekktustu tónskálda. Hlustað er á allmörg verk eftir þau, verkin formgreind og hljóðfæranotkun skoðuð. Einnig er farið stuttlega í sögu og þróun hljóðfæra og hljómsveita í Evrópu á þessum tíma. Stiklað er á stóru í ævi helstu tónskálda sem koma við sögu.  

Námsmat: Tekin eru bæði miðsvetrar- og vorpróf auk þess sem nemendur skrifa stutta ritgerð um efni áfangans. 

 

Hljóðfærafræði og útsetningar, klassískar 
Til að stunda nám í áfanganum þurfa nemendur að hafa lokið klassískri framhaldstónfræði F1.  

Nemendur læra um tónsvið hljóðfæra og eiginleika hvers tónsviðs. Skoðað verður hvernig tónskáld í gegnum tíðina hafa blandað saman hljóðfærum og útsett verk sín til að ná fram ákveðnum hljómi og tilfinningu. Nemendur útsetja einföld lög og jafnvel eigin tónsmíðar fyrir litla hópa sem og stærri hljómsveitir.  

Námsmat: Vinna nemenda verður metin reglulega yfir önnina með verkefnum, svo og ástundun og mætingu.  

 

Hljóðfærafræði og útsetningar, rytmískar 
Til að stunda nám í áfanganum þurfa nemendur að hafa lokið rytmískri framhaldstónfræði F1.  

Nemendur læra um tónsvið hljóðfæra og eiginleika hvers tónsviðs. Skoðað verður hvernig tónlistarmenn í gegnum tíðina hafa blandað saman hljóðfærum og útsett verk sín til að ná fram ákveðnum hljómi og tilfinningu. Nemendur útsetja einföld lög og jafnvel eigin tónsmíðar fyrir rytmískar hljóðfærasamsetningar. 

Námsmat: Vinna nemenda verður metin reglulega yfir önnina með verkefnum, svo og ástundun og mætingu.  

 

Tónsmíðar, klassískar 
Til að stunda nám í áfanganum þurfa nemendur að hafa lokið F1, klassískri framhaldstónfræði. 

Nemendur læra að skilja og notafæra sér tónsmíðatækni, form og tónlistarframvindu klassískra tónskálda í gegnum tíðina með því að semja tónlist í ákveðnum tónlistarstílum frá klassíska tímabilinu til atónal og 12-tóna tónsmíða 20. aldar. Hljóðfærafræði og útsetningar koma inn í námið er nemendur skrifa tónlist fyrir einleikshljóðfæri og kammerhópa. Kennslan fer fram í einkatímum og í litlum hópum.  

Námsmat: Ástundun, mæting og verkefnaskil.  

 

Tónsmíðar, rytmískar 
Til að stunda nám í áfanganum þurfa nemendur að hafa lokið F1, rytmískri framhaldstónfræði. 

Nemendur læra að skilja og notafæra sér tónsmíðatækni, form og tónlistarframvindu rytmískra tónlistarmanna í gegnum tíðina með því að semja tónlist í ákveðnum tónlistarstíl. Hljóðfærafræði og útsetningar koma inn í námið er nemendur skrifa tónlist fyrir einleikshljóðfæri og samspilshópa. Kennslan fer fram í einkatímum og í litlum hópum.  

Námsmat: Ástundun, mæting og verkefnaskil.  

 

Tónbókmenntir, klassísk tónlist 
Til að stunda nám í áfanganum þurfa nemendur að hafa lokið F2, klassískri framhaldstónfræði. 

Nemendur kryfja tónlist helstu tónskálda klassísku tónlistarsögunnar. Dregin eru fram helstu einkenni ákveðins tónlistarstíls og/eða tónskálds með tilliti til forms, laglína, hljómanotkunar, hljóðfæra og útsetninga. Viðfangsefni áfangans eru mismunandi eftir árum og önnum. 

Námsmat: Ástundun, mæting og verkefnaskil.  

 

Tónbókmenntir, rytmísk tónlist 
Til að stunda nám í áfanganum þurfa nemendur að hafa lokið F2, rytmískri framhaldstónfræði. 

Nemendur kryfja tónlist helstu tónlistarmanna dægurlaga, rokk og djass sögunnar. Dregin eru fram helstu einkenni hvers tónlistarstíls og tónlistarmanns með tilliti til forms, hljómanotkunar, spuna, hljóðfæranotkunar og raddbeitingar. Viðfangsefni áfangans eru mismunandi eftir árum og önnum. 

Námsmat: Ástundun, mæting og verkefnaskil. 

 

Kontrapunktur 
Til að stunda nám í áfanganum þurfa nemendur að hafa lokið F2, klassískri framhaldstónfræði. 

Farið er í aðferðir við kontrapunkt frá endurreisnartímabilinu, hvernig bæta má rödd við aðra sem er gefin, fyrst nótu á móti nótu og síðan fleiri nótur á móti nótu og grunnreglur í sambandi við það. Enn fremur er skoðaður kontrapunktur í invensjónum eftir Bach.  

Námsmat: Nemendur taka próf og skila verkefnum.