Fara í efni

Áfanganám

Tónlistarskólinn á Akureyri starfar undir Menntamálaráðuneytinu í samræmi við aðalnámskrá tónlistarskóla sem gefin var út árið 2000. Skv. aðalnámskrá skiptist námið í grunn- mið- og framhaldsáfanga og lýkur með framhaldsprófi nemenda. Ekki er óalgengt að nemendur sem hefja nám á milli fimm og tíu ára gamlir séu um 4-5 ár að ljúka grunnprófi, 3-4 ár að ljúka miðprófi og 2-4 ár að ljúka framhaldsprófi. Í lok hvers námsáfanga fá nemendur afhent áfangaprófsskírteini með einkunn og umsögn fyrir frammistöðu sína á skólaslitum skólans að vori. Hér fyrir neðan er hægt að fræðast um fyrirkomulag kennslunnar, námsmat og þær námsleiðir sem standa áfanganemendum til boða.

 

Hvernig fer kennslan fram?

Nemendur á áfangabraut fá hálfa til eina klukkustund í einkakennslu á sitt hljóðfæri. Sömuleiðis eiga nemendur að leika í hljómsveit eða samspili vikulega á meðan námi þeirra stendur auk þess sem þeir mæta einu sinni í viku í bóklegar greinar sem henta þeirra getu. Til að byrja með er mest áhersla lögð á að kveikja áhuga hjá nemendum í gegnum einkatímana en eftir því sem framvindan verður meiri verða tónfræðigreinar og hljómsveitaspilamennska stærri þáttur í náminu. Yfirlit yfir tónfræðigreinar er hægt að finna hér í stikunni til hægri. Áfanganám krefst reglulegra heimaæfinga og góðrar ástundunar og er því gott er að gera ráð fyrir því að nemendur þurfi að minnsta kosti hálfa klukkustund til heimaæfinga daglega. Æfingin skapar meistarann! Einkakennari nemenda heldur utan um allt skipulag tónfræðigreina og samspils fyrir sinn nemanda og er fulltrúi skólans þegar að náminu kemur en nemendur og forráðamenn geta að sjálfsögðu alltaf snúið sér til deildarstjóra, aðstoðarskóla eða skólastjóra til að forvitnast um hvaðeina sem náminu tengist.

Hvernig er námsmati háttað?

Ekki er óeðlilegt að nemendur séu nokkur ár að ljúka grunn-, mið eða framhaldsprófum. Áfangaprófin eru því stór áfangi fyrir nemendur sem ber að fagna. Þegar kennari metur það sem svo að nemandi hafi öðlast þá hæfni sem þarf til að ljúka áfangaprófi er það tilkynnt til prófanefndar tónlistarskóla sem sendir sérhæfðan prófdómara til að meta prófið. Í prófunum leika nemendur nokkur verk og æfingar og fá umsögn frá prófdómara og einkunn fyrir frammistöðuna.

Námsmat hljóðfæra- og söngnemenda í klassískri og rytmískri tónlist er afar fjölbreytt. Að hausti er sérstök foreldravika þar sem kennsla fellur niður og eiga nemendur og kennarar þess í stað tvíhliða samtal um markmið og óskir. Í viðtalinu gera nemendur og kennarar með sér markmiðasamning sem felur í sér óskir beggja og lýkur gerð hans með sameiginlegri staðfestingu á áætlun um markmið vetrarins. Í kjölfarið gera kennarar og nemendur saman verkefnaáætlun fyrir veturinn sem skráð er í upplýsingakerfi skólans, Visku. Aðgangur að Visku er sendur öllum nemendum Tónlistarskólans og er notkun hennar og þátttaka nemenda og foreldra lykilatriði hvað eftirfylgni námsins varðar.

Í markmiðasamtalinu er ákveðið hvaða námsmatsleið kennurum og nemendum þykir henta þörfum nemenda og námsmarkmiðum vetrarins. Að lokinni staðfestingu markmiðasamnings hefst vinna við námsmarkmið vetrarins. Nemendum stendur til boða að velja árspróf, námsmatstónleika, eða umsögn auk þess sem nemendur sem stunda Suzukinám taka svonefnd bókapróf. Í lok október fá nemendur miðannarmat sent í tölvupósti sem felur í sér stutt skilaboð frá kennara um hvernig vinnan gengur. Í janúar er síðan aftur foreldravika þar sem kennsla er felld niður og samtal á sér stað um framvindu vetrarins. Fyrir foreldraviku þurfa nemendur að fylla út leiðsagnarmat sem felur í sér sjálfsmat á því hvernig nemandinn upplifir framvinduna sem og stutt skilaboð um líðan eða athugasemdir um það sem betur mætti fara í kennslunni og skólastarfinu. Kennarar fylla einnig út sinn hluta leiðsagnarmats og hitta síðan nemendur og kennara í foreldravikunni og fara yfir málin. Í því samtali er markmiðasamningurinn einnig endurskoðaður og er þá möguleiki á því að aðlaga markmiðin í samræmi við reynsluna frá hausti. Þar er einnig hægt að breyta vali um námsmat og gera nýja verkefnaáætlun.

Í byrjun mars fá nemendur aftur stutt miðannarmat í tölvupósti út frá stöðu vinnu við endurskoðuð markmið. Í lok árs er síðan prófavika og tónleikavika þar sem nemendur gangast undir það námsmat sem valið hefur verið. Á skólaslitum fá nemendur svo afent námsmatsskírteini þar sem birtist yfirlit yfir framvindu vetrarins, miðannarmat, mætingar, ástundun, umsagnir og allt það sem tengist námi þeirra og virkni um veturinn.

Í tónfræðigreinunum G1 og 2, M1 og 2, F1, 2 og 3 og tónlistarsögu eru hefðbundin próf, jólapróf í desember og lokapróf í maí. Einkunnir í tónfræðagreinum geta tekið mið af verkefnaskilum sem gilda til einkunnar skv. áfangalýsingu en frekari lýsingu á fyrirkomulagi áfanga og kennsluáætlanir er hægt að nálgast hér : https://www.tonak.is/is/namid/tonfraedigreinar. Ekki geru gerðir markmiðasamningar vegna tónfræðagreina en nemendum er gert mögulegt að koma skilaboðum um framvindu og fyrirkomulag tímanna á framfæri í leiðsagnarmati.Tekið er fram að sérstakar reglur gilda um námsmat á Stúdentsbraut og er hægt að nálgast þær HÉR.

Lokanámsmatsleiðir

Þær lokanámsmatsleiðir sem standa til boða í skólanum eru eftirfarandi:

Árspróf

Nemendur leika stutta efnisskrá fyrir kennara í lok skólaárs, og samanstendur hún af æfingum, tónverkum og tækniæfingum. Kennari eða prófdómari úr röðum kennara skólans gefur nemendum einkunn og umsögn í samræmi við frammistöðu. Þessi leið hentar vel nemendum sem setja skýra stefnu á áfangapróf skv. aðalnámskrá tónlistarskóla.

Námsmatstónleikar

Nemendum stendur til boða að leika með öðrum nemendum á námsmatstónleikum í stað formlegs ársprófs og er frammistaða nemenda þá skráð í formi umsagnar af kennurum. Þessi námsleið getur hentað nemendum sem vilja leggja áherslu á að auka við framkomureynslu og líður betur með að spila á tónleikum en í formlegu prófi.

Bókarpróf

Bókarpróf eru takmarkaðir við nemendur í Suzukideild fara fram í formi sérstakra útskriftartónleika þegar nemendur hafa lokið tiltekinni námsbók. Nemendur undirbúa allt efni bókarinnar og draga út lög sem þeir leika á tónleikunum auk útskriftarlags. Nemendur fá svo skriflega umsögn. Að loknum tónleikum gleðjast nemendur og kennarar saman yfir áfanganum og nemendur fá litla útskriftargjöf. Bókarpróf eru bundin við nemendur á Suzukibraut skólans.

Áfangapróf

Grunn-, mið- og framhaldspróf eru haldin tvisvar til þrisvar sinnum á ári í Tónlistarskólanum. Kveðið er á um formgerð prófsins í aðalnámskrá tónlistarskóla og námsmat er í höndum Prófanefndar Tónlistarskóla sem sendir vottaða prófdómara til að meta frammistöðu í samræmi við kröfur aðalnámskrár. Frekari upplýsingar um áfangapróf og kröfur er að finna á léninu www.profanefnd.is.

Umsögn

Í undantekningartilfellum geta nemendur og kennarar geta komið sér saman um að veitt sé munnleg umsögn í samræmi við frammistöðu vetrarins. Þessi leið getur hentað byrjendum og yngri nemendum sem ekki eru farnir að huga að áfangaprófum.


Skólinn býður upp á þrjár námsleiðir fyrir nemendur í áfanganámi og eru þær eftirfarandi

Klassísk Tónlist

Nemendur sem velja þessa leið stunda nám samkvæmt klassískri evrópskri tónlistarhefð. Námsskipulagið tekur mið af aðalnámskrá Tónlistarskólanna og er mögulegt að finna upplýsingar um hæfni- og matskröfur HÉR. Nemendur sækja vikulega einkatíma hjá kennara auk vikulegra samspils- eða samsöngstíma, meðleikstíma og tónfræðigreina en frekari upplýsingar um þær greinar er hægt að nálgast í stikunni hér til hliðar. Námsstig námsleiðarinnar eru þrjú og skiptast í grunn-, mið og framhaldsnám. Skólinn fylgir eigin námsmati innan hvers einstaks námsstigs en samræmt námsmat er í höndum prófanefndar tónlistarskóla. Ítarlegri upplýsingar um innanskólanámsmat er einnig hægt að nálgast í stikunni hér til hliðar. Miðað er við að nemendur séu um 5-8 ár að ljúka grunnnámi, 3-4 ár að ljúka miðnámi og 3-4 ár að ljúka framhaldsnámi stundi þeir námið af kappi en fer það að sjálfsögðu eftir aldri nemenda og þörfum þeirra hversu lengi þeir dvelja á hverju námsstigi. Að loknu framhaldsprófi í hljóðfæraleik leikur eða syngur nemandi 30-60 mínútna langa efnisskrá á tónleikum og hafi hann lokið tilskyldum tónfræðaáföngum samhliða hljóðfæranáminu fær hann í hendur fullgilt framhaldspróf í klassískri tónlist.

Rytmísk Tónlist

Nemendur sem velja þessa leið leggja stund á Jazz, Pop og Rokktónlist. Námsskipulagið tekur mið af aðalnámskrá Tónlistarskólanna og er mögulegt að finna upplýsingar um hæfni- og matskröfur HÉR. Nemendur sækja vikulega einkatíma hjá kennara auk vikulegra samspils- eða samsöngstíma, meðleikstíma og tónfræðigreina en frekari upplýsingar um þær greinar er hægt að nálgast í stikunni hér til hliðar. Námsstig námsleiðarinnar eru þrjú og skiptast í grunn-, mið og framhaldsnám. Skólinn fylgir eigin námsmati innan hvers einstaks námsstigs en samræmt námsmat er í höndum prófanefndar tónlistarskóla. Ítarlegri upplýsingar um innanskólanámsmat er einnig hægt að nálgast í stikunni hér til hliðar. Miðað er við að nemendur séu um 5-8 ár að ljúka grunnnámi, 3-4 ár að ljúka miðnámi og 3-4 ár að ljúka framhaldsnámi, stundi þeir námið af kappi, en fer það að sjálfsögðu eftir aldri nemenda og þörfum þeirra hversu lengi þeir dvelja á hverju námsstigi. Að loknu framhaldsprófi í hljóðfæraleik leikur eða syngur nemandi 30-60 mínútna langa efnisskrá á tónleikum og hafi hann lokið tilskyldum tónfræðaáföngum samhliða hljóðfæranáminu fær hann í hendur fullgilt framhaldspróf rytmískri Tónlist.

Suzukiaðferð fyrir fiðlu, víólu selló og píanó

 Suzukideild starfar einnig samkvæmt aðalnámskrá Tónlistarskólanna en starfshættir og námsmat innan deildarinnar er töluvert frábrugðið því sem gerist í almennu námi í klassískri og rytmískri tónlist. Í Suzukideild er kennt á fiðlu, víólu, selló, kontrabassa og píanó. Suzukinám og kennsla byggir á hugmyndum Shinichi Suzuki um að að öll börn hafi hæfileika til að læra tónlist á sama hátt og öll börn læra móðurmál sitt. Barn sem aldrei heyrir talmál, lærir ekki að tala; barn sem aldrei heyrir góða tónlist, þroskar ekki með sér tónlistarhæfileika. Tónlistarhæfileikar eru miklu fremur áunnir en meðfæddir. Nemandi sækir einkatíma einu sinni í viku og hóptíma. Þegar líður á námið auka nemendur við sig og eru tvisvar sinnum í viku í einkatíma og taka einnig þátt í öðru samspili, svo sem strengjasveitum skólans. Nótnalestur er kenndur þegar nemendur eru komnir á skólaaldur og eru byrjaðir að læra að lesa sem og tónfræðigreinar samkvæmt aðalnámskrá.

 

Þessi aðferð við tónlistarkennslu reynir þannig að líkja eftir máltöku barna en eftirfarandi atriði eru mikilvæg í því sambandi og eru einkenni Suzukináms:

Hægt er að byrja snemma, jafnvel um 3ja ára aldur.

Mikil hlustun á námsefnið er til þess að líkja eftir móðurmálsumhverfi barnsins.

Herminám í byrjun því þannig læra börnin að tala og ganga.

Mikla endurtekningar líkt og þegar börnin endurtaka fyrstu orðin.

Foreldrar taka þátt í náminu og Suzuki-kennarar leiðbeina þeim hvernig þeir geta kennt börnunum heima.

Lestur kemur seinna. Fyrst lærum við að tala, síðan að lesa – það sama á við um nótnalestur.

Gömlu lögunum er stöðugt haldið við og þau fáguð eftir því sem kunnáttan eykst.

Hóptímar sem viðbót við vikulega einkatíma. Þar er félagslegi þátturinn virkjaður og ýmis atriði þjálfuð með lögunum sem allir nemendurnir kunna.

Mikilvægt er að nemendur búi að jákvæðu, öruggu og örvandi umhverfi, bæði heima og að heiman.

Meira um hljóðfærin

Meira um söng

Sækja um