Fara í efni

Lífsleikni tónlistarmannsins

Lífsleikni Tónlistarmannsins

Þrep: 1

Einingar:1

Forkröfur: Miðpróf í hljóðfæraleik-/söng

Lýsing:

Í fyrri áfanga lífsleikni tónlistarmannsins er nemendum ætlað að skoða eigin væntingar og markmið í  nýju umhverfi og þroska með sér viðhorf sem endurspegla aukna ábyrgð á eigin verkum.  Áfanganum er ætlað að kynna þjónustu og starfsemi skólans fyrir nemendum til að þeir geti mótað sér hugmyndir um hvernig þeir geta sem best nýtt námsframboð og einnig er farið vel yfir þær væntingar og kröfur sem skólasamfélagið gerir til þeirra.

Fjallað er um leiðir tilmats á eigin stöðu, aðferðir til að meta umfang verkefna, greiningu verkþátta, mótun aðgerðaáætlana, tímastjórnun og skipulag. Nemendur fræðast um mikilvægi jákvæðrar sjálfsmyndar, farið verður yfir eðli framkomukvíða og helstu aðferðir til þess að efla öryggi við opinberan flutning tónlistar.  Rætt er um mikilvægi jákvæðra samskipta, samstarf innan hópa, félagastuðning og hvað einkennir framkomu og vinnubrögð listamanna og hópa sem notið hafa velgengni.

Í seinni áfanga lífsleikni tónlistarmannsins er farið yfir námsleiðir sem nemendum standa til boða að loknu stúdentsprófi.  Farið er yfir nám í helstu tónlistarháskólum hérlendis sem erlendis, námsleiðir og sérhæfða þjónustu þeirra í klassískri, ritmískri og skapandi tónlist auk þeirra skilyrða sem viðkomandi skólar setja um inntöku nemenda.  Farið er yfir hvað einkennir árangursríkar umsóknir og hvað nemendur sem hyggjast sækja um nám í háskóla þurfa að undirbúa fyrir inntökupróf sem og hverju ber að huga að í undirbúningi umsókna.  Farið er yfir samfélagsgerðir mismunandi háskólastofnana sem og praktíska þætti sem tengjast námslánum, námsgjöldum og aðstöðu í viðkomandi skólum.  Í áfanganum er einnig rætt um misjafnar starfsgreinar tónlistarfólks, fjölbreytilega atvinnumöguleika í flutningi og/eða sköpun tónlistar, höfundrréttarmál, prufuspil og tónlistarkennslu.  Rætt er um markaðssetningu tónlistarmannsins sem og mikilvægi vandaðra samskipta, faglegra vinnubragða og trausts þegar kemur að samkeppnismálum.  Einnig er rætt um muninn á verktakastörfum og fastráðningum á sviði klassískrar og ritmískrar tónlistar, fjármálalæsi, skattskýrslugerð einstaklinga í tónlistarstörfum, rekstur hljómsveita auk þess sem helstu möguleikar á styrkjum til verkefna bæði innanlands og utan eru kynntir fyrir nemendum.  

Námsmat : 90% mætingaskylda er í áföngunum og nemendum ber skylda til að skila öllum verkefnum.  Lokanámsmat tekur mið af mætingum og verkefnaskilum og er annað hvort staðið eða fallið.