Stúdentsbraut

Stúdentsbrautin er samstarfsverkefni Tónlistarskólans á Akureyri og allra framhaldsskóla á Norðausturlandi. Stúdentsbrautin er þriggja ára nám til stúdentsprófs og er hún sérstaklega ætluð nemendum sem hyggjast stunda tónlist að aðalstarfi. Stúdentsbraut Tónlistarskólans á Akureyri bíður upp á þrjár námsleiðir, klassíska tónlist,rytmíska tónlist og skapandi tónlist, en nemendur hafa möguleika á að móta tónlistarnámið að sínu áhugasviði.

Nemendur á klassísku og rytmísku námsleiðunum hafa hljóðfæraleik eða söng sem aðalfag og nemendur á námsleiðinni skapandi tónlist hafa tónlistarverkefni sem aðalfag ásamt hljóðfæraleik/söng, hljóðlist eða hljóðupptökutækni. Námið leggur ríka áherslu á skapandi og verklegan þátt tónlistar í kjarna og telur aðalfagið samtals 48 einingar. Auk aðalfags stunda nemendur samspil eða samsöng og koma fram á fjölmörgum nemendatónleikum á vetri hverjum. Nemendur læra jafnframt tónfræðigreinar og sögu tónlistar Íslands, Evrópu og heimsins alls.

Stúdentsbrautin gefur nemendum góðan undirbúning fyrir inntökupróf í tónlistarháskóla, þekkingu og reynslu í tónlistarflutningi, tónsköpun og hljóðvinnslu og undirbýr þá fyrir að taka virkan þátt í tónlistarlífi samfélagsins á fjölbreyttan máta.

Inntökuskilyrði: Nemendur sem vilja læra samkvæmt rytmísku eða klassísku námsleiðinni þurfa að vera vel á veg komnir með að ljúka miðprófi í tónlist. Nemendur sem vilja læra samkvæmt námsleiðinni skapandi tónlist þurfa að hafa haldgóða reynslu í hljóðfæraleik, söng, hljóðversvinnu eða tónsköpun og geta sýnt fram á og skilgreint markmið með náminu. Jafnframt fer fram inntökupróf eða inntökuviðtal þar sem lagt er mat á hæfni umsækjanda og markmið nemenda með náminu kannað. Ef fleiri sækja um en hægt er að innrita áskilur tónlistarskólinn sér rétt til að velja þá nemendur sem hann telur hafa bestan undirbúning.

Námsmat og námsframvinda: Í skólanum er lögð áhersla á símat og fjölbreyttar aðferðir við námsmat, allt eftir því hvað hentar hverjum áfanga best. Námsmat er tilgreint í áfangalýsingu og kennsluáætlun hvers áfanga. 

Nemendur þurfa að athuga vel á hvaða þrepum áfangarnir eru sem þeir velja og að þeir hafi lokið þeim áföngum sem nefndir eru undir liðnum „Forkröfur“.