Fara í efni

Píanó

Nú til dags eru píanó algeng sjón á heimilum, í skólum og samkomuhúsum og víðar, enda eru þau vinsæl til undirleiks að ýmsum toga. Flestir hafa einhvern tíman „gutlað“ eitthvað á píanó. En þetta hefur ekki alltaf verið þannig. Í lok 18. aldar voru innan við tíu píanó í Reykjavík og sennilega engin í sveitunum, kannski eitt og eitt á Akureyri. Síðustu ár og áratugi hefur píanóið notið mikilla vinsælda og mikil ásókn er í að læra á hljóðfærið, enda er ekki of erfitt að stíga fyrstu skrefin og ná tökum á grunnatriðum.  Á píanó er ekki bara hægt að spila laglínu heldur líka hljóma og að búa til ólíkan hryn. Sumir segja að píanóið jafnist á við heila hljómsveit. Nú til dags eru sum píanó meira að segja rafmangspíanó sem vel má nýta til heimaæfinga en hafa ber í huga að rafmagnspíanó er samt ekki það sama og hljómborð.

Til að ná árangri á hljóðfæri er nauðsynlegt að æfa sig reglulega heima. Til þess að það sé hægt er nauðsynlegt að nemandinn hafi aðgang að hljóðfæri. Píanó eru ekki til leigu í tónlistarskólanum og því þarf að útvega hljóðfæri með öðrum hætti, fá lánað eða kaupa. Mikilvægt er að ráðfæra sig við kennara þegar kemur að hljóðfærakaupum. Óþarft er að nefna að stuðningur foreldra og forráðamanna við nám barna skiptir sköpum og að hraðar framfarir auka ánægjuna og gleðina við píanóið um allan helming.

Píanó

Hægt er að byrja að læra á píanó á öllum aldri, ef svo má segja – aldrei of seint að byrja. Byrjendur ættu samt ekki að vera mikið yngri en fjögurra ára. Námið fer fram í einkatímum þar sem nemendur hitta kennara sinn tvisvar í viku í 30 min. í senn (miðað við fullt nám). Hægt er að velja hefðbundið nám en líka námsleið sem kennd er við japanska kennarann Shinichi Suzuki (1898–1998) og hentar sérstaklega vel allra yngstu nemendunum. Auk þess fylgja náminu hliðargreinar, breytilegar eftir aldri og þroska, sem þjóna því hlutverki að auka og dýpka skilning og skynjun nemandans á ólíkum hliðum tónlistarinnar og hljóðfæranámsins.

Allt píanónám við tónlistarskólann er samkvæmt námsskrá Menntamálaráðuneytisins og áfangapróf miða við Prófanefnd tónlistarskólanna. Nemendur byrja að sækja tónfræðitíma þegar kennarar telja það tímabært.

Nám á píanó í rytmískri deild skiptist í einkatíma og hljómsveitarstarf. 

Námsleiðir í boði

Fornám (5-9 ára) Áfangabraut (5 ára+) Stúdentsbraut

Kennarar

Helena G. Bjarnadóttir
Kennari
Píanó

Helena Guðlaug Bjarnadóttir nam píanóleik á Siglufirði, Akureyri og lauk svo píanó- kennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1993 og Burtfararprófi ári síðar þar sem kennari hennar var Halldór Haraldsson. Hún sótti einkatíma hjá Halldóri um tíma eftir námið og svo eitt ár hjá prófessor Xiao-Mei Zhu í París. Helena hefur kennt á píanó og unnið við meðleik í tónlistarskólanum á Akureyri frá árinu 2000.

Lidia Kolosowska
Kennari
Píanó, Suzukipíanó, Meðleikur, Fagstjóri

Lidia Kolosowska lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Gdansk í Póllandi árið 1979 undir handleiðslu Elzbietu Sokolnicka. Sama ár hóf Lidia nám við Tónlistarakademínuna í Gdansk þar sem aðalkennari hennar var professor Krystyna Jastrzebska. Þaðan lauk hún meistaraprófi í píanóleik árið 1984. Strax eftir námið starfaði hún sem píanókennari við Kennaraháskólann í Slupsk. Árið 1989 flutti Lidia til Íslands ásamt fjölskyldu sinni og starfaði sem píanókennari við Tónskóla Ólafsfjarðar og Tónlistarskóla Dalvíkur áður en hún kom til starfa í Tónlistarskóla Akureyrar árið 2003. Lidia er suzuki píanókennari og undirleikari.

Ludvig Kári Forberg
Kennari
Rytmísk tónfræði, Jazzpíanó, Hljómborð

Ludvig Kári Forberg kennir rytmíska tónfræði, hljómborð og píanó. Hann er útskrifaður úr Berklee College of Music og Boston University í jazzvíbrafónleik og tónfræðum og hefur verið virkur sem tónlistarmaður og kennari til fjölda ára á Íslandi sem og í Bandaríkjunum. Ludvig Kári gaf út frumsamdar tónsmíðar sínar á geisladisknum Rákir er kom út 2020 en einnig komu Rákir út á hljómplötu 2021. Fyrir utan hljóðfæraleik og tónsmíðar er tónfræði og sér í lagi hljómfræðahluti tónfræða hans helsta ástríða.

Þórarinn Stefánsson
Píanókennari - Fagstjóri Píanódeildar
Píanó, fagstjóri
Þórarinn Stefánsson lauk kennara- og einleikararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1987 og stundaði framhaldsnám í Hannover í Þýskalandi. Hann hefur komið fram á fjölda tónleika víða um Evrópu sem einleikari og meðleikari með söngvurum og hljóðfæraleikrurum. Þórarinn hefur gert upptökur fyrir sjónvarp og útvarp m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Árin 2007 og 2014 hlaut hann starfslaun listamanna. 

Þrír geisladiskar hafa komið úr með leik Þórarins: „Ísland“ (2014) þar sem hann leikur útsetningar á íslenskum þjóðlögum, „Rætur“ (2018) með verkum eftir Erik Satie, Oliver Kentish og Kolbein Bjarnason og árið 2022 kom úr geisladiskur þar sem Þórarinn og Emil Friðfinnsson leika saman á horn og píanó. Þá hefur Þórarinn staðið fyrir umfangsmikilli útgáfu nótnabóka.