Fara í efni

Þverflauta

Þverflautan er blásturshljóðfæri sem tilheyrir tréblástursfjölskyldunni. Í gamla daga voru þverflautur úr tré og þess vegna tilheyrir þverflautan tréblásturshljóðfærunum. Í dag eru þverflautur gerðar úr málmi, nemendaflautur eru silfurhúðaðar en flautur atvinnuflautuleikara eru ýmist úr silfri eða gulli. Þverflautan er að sumu leyti lík blokkflautunni, en nafnið kemur til af því að henni er haldið þvert á líkama þverflautuleikarans. Mikilvægt er að nemandinn læri strax í upphafi að beita líkamanum á eðlilegan hátt og nái að halda flautunni í jafnvægi án áreynslu.

Í þverflautufjölskyldunni eru fimm misstórar þverflautur: piccoloflauta, c-flauta (venjuleg flauta), altflauta í g, bassaflauta í c og svo hin risastóra kontrabassa flauta. Fleiri þverflautur eru til, en þær eru afar sjaldgæfar. Í framhaldsnámi er æskilegt að nemandinn fái að kynnast piccoloflautunni enda er hún mikið notuð bæði í sinfóníuhljómsveitum og lúðrasveitum. Einnig getur verið gott að kynnast altflautunni en hún er einkum notuð í 20. aldar tónlist.

ÞVERFLAUTA

Algengast er að nemendur hefji þverflautunám 8-10 ára. Tónlistarskólinn leigir út hljóðfæri til nemenda sinna fyrstu árin en yfirleitt er gert ráð fyrir að nemendur eignist eigið hljóðfæri þegar þeir eru komnir nokkuð áleiðis í námi sínu. Mikilvægt er að ráðfæra sig við kennara þegar kemur að hljóðfærakaupum.

Nám á þverflautu skiptist í einkatíma og hljómsveitaræfingar með Blásarasveitum Tónlistarskólans á Akureyri, en að auki fá nemendur tækifæri til að spila í Flautusamspilinu og minni samspilshópum. Kennt er eftir aðalnámskrá tónlistarskóla og þverflautunemendur byrja að sækja tónfræðitíma þegar kennarar telja það tímabært.

Námsleiðir í boði

Fornám (5-9 ára) Áfangabraut (5 ára+) Stúdentsbraut

Petrea Óskarsdóttir
Kennari
Þverflauta, Flautukór

Petrea Óskarsdóttir lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1989. Hún fór síðan til Frakklands og stundaði framhaldsnám við Conservatoire National de Region í Versölum.  Petrea hefur starfað sem tónlistarkennari í rúm þrjátíu ár, m.a. í Tónskóla Sigursveins, Tónmenntaskólanum í Reykjavík og lengst af í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar áður en hún flutti norður. Petrea leggur áherslu á að halda góðu samstarfi við flautukennara um allt land og hún kom á fót árlegum Flautudegi á Norðurlandi sem vettvang fyrir samspil og samveru norðlenskra flautunemenda og -kennara.  Petrea er virk í íslensku tónlistarlífi og kemur oft fram á tónleikum bæði sem einleikari og í ýmiskonar kammartónlist hérlendis sem erlendis. Hún er fastur meðlimur Íslenska flautukórsins og einn af þrem flautuleikurum Aulos Flute Ensemble. https://www.aulosflutes.com. Auk þess leikur hún með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.

Una Björg Hjartardóttir
Aðstoðarskólastjóri - Kennari
Aðstoðarskólastjóri, Þverflauta

Una Björg Hjartardóttir lauk blásarakennaraprófi við Tónlistarskólann í Reykjavík vorið 2000. Hún hóf störf við Tónlistarskólann á Akureyri 2001 og hefur kennt þar á þverflautu, klarinett, saxófón, í forskóla og stjórnað blásarasveitum. Una Björg var deildarstjóri 2014-2019 og hefur verið aðstoðarskólastjóri frá 2019. Auk þess að starfa við tónlistarskólann hefur hún leikið með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og fleirum.