Fara í efni

Trompet

Trompet er blásturshljóðfæri sem tilheyrir málmblástursfjölskyldunni. Til þess að fá tón úr hljóðfærinu þarf að blása og purra í munnstykkið, en þá hljómar hinn mjúki og mikilfenglegi tónn trompetsins. Trompet gegnir veigamiklu hlutverki í mörgum hljómsveitum, svo sem sinfóníuhljómsveitum, stórsveitum, lúðrasveitum og djasshljómsveitum.

Til eru nokkrar gerðir trompeta. Algengastar eru trompet og kornett, en kornettinn er styttri en trompetinn og tóninn örlítið mýkri fyrir vikið. Aðrar týpur eru t.d. flugelhorn, sem er stærri og svo pikkolótrompetinn sem minnstur í trompetfjölskyldunni.

TROMPET

Nám á trompet getur hafist þegar nemendur hafa líkamlega burði til að leika á hljóðfærið og fullorðinsframtennur eru komnar á sinn stað. Algengast er að námið hefjist þegar nemendur eru á aldrinum 8 til 10 ára. Oft þykir heppilegt að nemendur hefji nám á kornett þar sem það er léttara og meðfærilegra en trompet.

Tónlistarskólinn leigir út hljóðfæri til nemenda sinna fyrstu árin en yfirleitt er gert ráð fyrir að nemendur eignist eigið hljóðfæri þegar þeir eru komnir nokkuð áleiðis í námi sínu. Mikilvægt er að ráðfæra sig við kennara þegar kemur að hljóðfærakaupum.

Nám á trompet skiptist í einkatíma og hljómsveitaræfingar með blásarasveitum Tónlistarskólans á Akureyri. Að auki fá nemendur tækifæri til að spila í minni samspilshópum. Kennt er eftir aðalnámskrá tónlistarskóla og trompetnemendur byrja að sækja tónfræðitíma þegar kennarar telja það tímabært.

Námsleiðir í boði

Fornám (5-9 ára) Áfangabraut (5 ára+) Stúdentsbraut

Sóley Björk Einarsdóttir
Kennari, hljómsveitastjóri og fagstjóri
Málmblástur, Blásarasveit, Tónfræði

Sóley Björk Einarsdóttir er fagstjóri blásaradeildar Tónlistarskólans á Akureyri og kennir á ýmis málmblásturhljóðfæri. Þar að auki stjórnar hún A og C blásarasveitum við Tónlistarskólann.Sóley lauk framhaldsnámi í klassískum trompetleik frá Royal Conservatory of The Hague í Hollandi ásamt tveimur aukagráðum í kennslufræði og barokktrompetleik. Einnig er hún meðlimur Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og kammersveitinni Elju. Sóley byrjaði að kenna við Tónlistarskólann haustið 2018 og leggur mikinn metnað í að styrkja starf blásara á Akureyri. „Í kennslunni legg ég áherslu á að vekja áhuga nemenda, finna hvaða leiðir henta þeim svo þeir nái árangri og að gleðin sé ekki langt undan. Í námi sem ekki er skyldunám skiptir miklu máli að nemandanum líði vel og það sé gaman til þess að hann haldi áfram og nái árangri. Það er ótrúlega gaman og ómetanlegt að sjá nemendur blómstra í hljómsveitarstarfinu, bæði félagslega og á hljóðfærinu sínu“

Vilhjálmur Ingi Sigurðsson
Kennari
Trompet

Vihjálmur lærði á trompet frá 9 ára aldri við Tónlistarskólann á Akureyri og við Tónlistarskóla Eyjafjarðar, fór í framhaldsnám við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk Einleikaraprófi og Blásarakennaraprófi árið 2003.  Þaðan lá leiðin til Noregs nánar tiltekið í Norges Musikhögskole og lauk þaðan Bachelor prófi árið 2005, síðan til  Finnlands í Sibeliusarakademíuna í Helsinki og lauk þaðan Mastersprófi árið 2008. Hann kann því nokkur tungumál og finnsku þar með talið.