Fara í efni

Túba

Túba er stórt og fyrirferðarmikið hljóðfæri. Því getur verið æskilegt að nemendur hefji nám á annað minna og meðfærilegra málmblásturshljóðfæri en skipti síðar yfir á túbu þegar kennari telur henta. Þess má þó geta að á síðari árum hafa verið hannaðar minni túbur sérstaklega með unga nemendur í huga. 

Túbur eru til í mörgum stærðum og gerðum, misdjúpar. Algengastar eru túbur í B eða Es og miðar námskráin við að notuð séu slík hljóðfæri. Í sinfóníuhljómsveitum eru túbur í C hins vegar algengastar en túbur í F eru gjarnan notaðar af einleikurum og í kammerhópum

Túban er ómissandi í allar tegundir hljómsveita; blárasveitir, sinfóníuhljómsveitir, og brassbönd en túbuleikarinn myndar grunninn í hljómsveitinni.

Þó að túban sé ekki dæmigert einleikshljóðfæri er til talsvert af einleiksverkum fyrir hljóðfærið en mörg þeirra eru umritanir verka fyrir önnur hljóðfæri, svo sem selló og trompet.

TÚBA

Nám á túbu getur hafist þegar nemendur hafa líkamlega burði til að leika á hljóðfærið, oftast við 10 til 12 ára aldur. Dæmi eru þó um að nemendur byrji talsvert fyrr, allt niður í 8 ára aldur.

Nám á túbu skiptist í einkatíma og hljómsveitaræfingar með Blásarasveitum Tónlistarskólans á Akureyri, en að auki fá nemendur tækifæri til að spila í minni samspilshópum. Kennt er eftir aðalnámskrá tónlistarskóla og túbunemendur byrja að sækja tónfræðitíma þegar kennarar telja það tímabært.

Tónlistarskólinn leigir út hljóðfæri til nemenda sinna fyrstu árin en yfirleitt er gert ráð fyrir að nemendur eignist eigið hljóðfæri þegar þeir eru komnir nokkuð áleiðis í námi sínu. Mikilvægt er að ráðfæra sig við kennara þegar kemur að hljóðfærakaupum.

Námsleiðir í boði

Fornám (5-9 ára) Áfangabraut (5 ára+) Stúdentsbraut

Sóley Björk Einarsdóttir
Kennari, hljómsveitastjóri og fagstjóri
Málmblástur, Blásarasveit, Tónfræði

Sóley Björk Einarsdóttir er fagstjóri blásaradeildar Tónlistarskólans á Akureyri og kennir á ýmis málmblásturhljóðfæri. Þar að auki stjórnar hún A og C blásarasveitum við Tónlistarskólann.Sóley lauk framhaldsnámi í klassískum trompetleik frá Royal Conservatory of The Hague í Hollandi ásamt tveimur aukagráðum í kennslufræði og barokktrompetleik. Einnig er hún meðlimur Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og kammersveitinni Elju. Sóley byrjaði að kenna við Tónlistarskólann haustið 2018 og leggur mikinn metnað í að styrkja starf blásara á Akureyri. „Í kennslunni legg ég áherslu á að vekja áhuga nemenda, finna hvaða leiðir henta þeim svo þeir nái árangri og að gleðin sé ekki langt undan. Í námi sem ekki er skyldunám skiptir miklu máli að nemandanum líði vel og það sé gaman til þess að hann haldi áfram og nái árangri. Það er ótrúlega gaman og ómetanlegt að sjá nemendur blómstra í hljómsveitarstarfinu, bæði félagslega og á hljóðfærinu sínu“