Námsmat

Hér er hægt að finna upplýsingar um námsmat nemenda í klassískri, ritmískri og Suzukideild

Námsmat við Tónlistarskólann á Akureyri er einstaklingsmiðað en er einnig ákvarðað út frá þeirri námsbraut og námsaðferð sem nemendur leggja stund á.  Tekið er fram að sérstakar reglur gilda um námsmat á Stúdentsbraut og er hægt að nálgast þær HÉR.

Hljóðfæra- og söngnemendur

Námsmat hljóðfæra- og söngnemenda í klassískri og ritmískri tónlist er afar fjölbreytt.  Að hausti er sérstök foreldravika þar sem kennsla fellur niður og eiga nemendur og kennarar þess í stað tvíhliða samtal um markmið og óskir.  Í viðtalinu gera nemendur og kennarar með sér markmiðasamning sem felur í sér óskir beggja og lýkur gerð hans með sameiginlegri staðfestingu á áætlun um markmið vetrarins.  Í kjölfarið gera kennarar og nemendur saman verkefnaáætlun fyrir veturinn sem skráð er í upplýsingakerfi skólans, Visku.  Aðgangur að Visku er sendur öllum nemendum Tónlistarskólans og er notkun hennar og þátttaka nemenda og foreldra lykilatriði hvað eftirfylgni námsins varðar. 

Í markmiðasamtalinu er ákveðið hvaða námsmatsleið kennurum og nemendum þykir henta þörfum nemenda og námsmarkmiðum vetrarins.  Upplýsingar um námsmatsleiðir er hægt að finna í stikunni HÉR til hliðar.   Að lokinni staðfestingu markmiðasamnings hefst vinna við námsmarkmið vetrarins.  Í lok Október fá nemendur miðannarmat sent í tölvupósti sem felur í sér stutt skilaboð frá kennara um hvernig vinnan gengur.  Í janúar er síðan aftur foreldravika þar sem kennsla er felld niður og samtal á sér stað um framvindu vetrarins.  Fyrir foreldraviku þurfa nemendur að fylla út leiðsagnarmat sem felur í sér sjálfsmat á því hvernig nemandinn upplifir framvinduna sem og stutt skilaboð um líðan eða athugasemdir um það sem betur mætti fara í kennslunni og skólastarfinu.  Kennarar fylla einnig út sinn hluta leiðsagnarmats og hitta síðan nemendur og kennara í foreldravikunni og fara yfir málin.  Í því samtali er markmiðasamningurinn einnig endurskoðaður og er þá möguleiki á því að aðlaga markmiðin í samræmi við reynsluna frá hausti.  Þar er einnig hægt að breyta vali um námsmat og gera nýja verkefnaáætlun.

Í byrjun mars fá nemendur aftur stutt miðannarmat í tölvupósti út frá stöðu vinnu við endurskoðuð markmið.  Í lok árs er síðan prófavika og tónleikavika þar sem nemendur gangast undir það námsmat sem valið hefur verið.  Á skólaslitum fá nemendur svo afent námsmatsskírteini þar sem birtist yfirlit yfir framvindu vetrarins, miðannarmat, mætingar, ástundun, umsagnir og allt það sem tengist námi þeirra og virkni um veturinn.

Námsmat forskólanemenda

Nemendur í forskóla fá ekki hefðbundið námsmat en kennarar senda nemendum umsögn tvisvar á önn.  Hringekju lýkur með tónleikum í desember og maí en ekki er veitt umsögn fyrir nám vetrarins sem hefur það að aðalmarkmiði að kynna ólík hljóðfæri fyrir ungum nemendum til að þau geti valið sér hljóðfæri sem hentar þeirra áhugasviði.

Námsmat tónfræðigreina í klassískri og ritmískri deild.

Í tónfræðigreinunum G1 og 2, M1 og 2, F1, 2 og 3 og tónlistarsögu eru hefðbundin próf, jólapróf í desember og lokapróf í maí.  Einkunnir í tónfræðagreinum geta tekið mið af verkefnaskilum sem gilda til einkunnar skv. áfangalýsingu en frekari lýsingu á fyrirkomulagi áfanga og kennsluáætlanir er hægt að nálgast hér : https://www.tonak.is/is/namid/tonfraedigreinar. Ekki geru gerðir markmiðasamningar vegna tónfræðagreina en nemendum er gert mögulegt að koma skilaboðum um framvindu og fyrirkomulag tímanna á framfæri í leiðsagnarmati.