Fara í efni

Flautur á flakki

Flautur á flakki

Dagana 24.-29. apríl sl. lögðu flautunemendur Tónlistarskólans á Akureyri ásamt einum píanónemanda og kennurum þeirra, Petreu Óskarsdóttur og Þórarni Stefánssyni, í tónleikaferð til Frakklands. Undirbúningur ferðarinnar hafði staðið í allan vetur og mikil tilhlökkun. Það er skemmst frá því að segja að ferðin stóðst allar væntingar og var þetta sannkallað ævintýr fyrir bæði kennara og nemendur.

Samstarf var haft við þjóðlagahóp á Normandie og sameiginlegir tónleikar haldnir í gömlum kastala í bænum Creully á íslensk-frönsku kvöldi með viðeigandi hlaðborði með réttum frá báðum löndum, þar sem norðlenskt hangikjöt, flatbrauð og harðfiskur runnu ljúflega niður hjá frönsku gestgjöfunum!

Það var svo í gegnum konsúl Íslands á Normandie að hópurinn fékk að halda tónleika í kirkjunni Notre-Dame d´Estrées í Calvados héraðinu. Kirkjan er umvafin sveitasælu einsog best gerist á Normandie, blómstrandi eplatrjám, bindingsverkshúsum og kúm á beit. Leikið var fyrir þéttsetinni kirkju þar sem íslandsvinir og Íslendingar búsettir í Normandie, ásamt fastagestum kirkjunnar, fjölmenntu. Fengu stúlkurnar mikið lof fyrir agaðan og hljómfagran samleik og fallega framkomu. Fjallað var um þessa tónleika á heimasíðu kirkjunnar og í fjölmiðlum.

Síðan var haldið til Parísar sem tók brosandi á móti hópnum með sól og sumaryl og þeyttist hópurinn á milli helstu menningarstaða á eina frídeginum í ferðinni. Það var síðan gott að hvíla lúin bein og hlusta á tónleika í einni af perlum Parísar, Saint Chapelle kirkjunni.

Ferðinni lauk með lokatónleikum í Auditorium í Conservatoire í 18. hverfi. Það var Jóhann Nardeau sem tók á móti hópnum, ásamt flautukennurum skólans. Flautunemendur skólans tóku þátt í tveimur verkum á tónleikunum og var æft saman fyrir tónleikana og þar eignuðust nemendur nýja vini! Aftur var leikið fyrir fullu húsi, flautunemenda, brosandi foreldra, kennara og skólatjóra skólans. Mikið var klappað og foreldrar og nemendur lýstu hrifningu sinni og allir mjög spenntir að fá að koma til Íslands og endurgjalda heimsóknina.

Það má með sanni segja að nemendur tónlistarskólans hafi verið skólanum til sóma, komu einstaklega vel fram, spiluðu mjög vel á öllum tónleikunum, sýndu ríka samhygð með hvor annari og voru alveg frábærir ferðafélagar.