Fara í efni

Pistill frá deildarstjóra klassískrar deildar - Hannah Felicia

Pistill frá deildarstjóra klassískrar deildar - Hannah Felicia

Ég var að sjá flottustu danssýningu í heimi held ég - þetta er besti dagur lífs míns, eins og það heitir. (Hann ber upp annað slagið, með hjálp góðs og skemmtilegs fólks.)

Lára Stefánsdóttir danshöfundur og dansararnir Hannah Karlsson og Felicia Sparrström bjuggu þarna til eitthvað klikkað flott og ótrúlega fallegt - ég hef aldrei séð annað eins. Ótrúlegt tríó!

Önnur sænsku dansstallsystranna fer ferða sinna í hjólastól og hin labbar á tveim fótum. Það virtist mér ekki vera umfjöllunarefni dansins og er ekki í frásögur færandi nema í samhengi við umræðuna um hvort manneskjur með fötlun eigi erindi sem listamenn.

 

Svarið er AUGLJÓSLEGA JÁ!!!!!!!!

Sumt fólk hefur eitthvað fram að færa á sviði lista. Og hefur sig yfir misháar hindranir til að koma því á framfæri. Öll getum við margt en ekkert okkar getur allt. Og það er það sem við gerum sem telur. Hvert okkar er heil manneskja, ekkert getur nokkurn tímann vantað upp á það. Við stígum ekki öll á fjalir leikhúsanna, sinfóníuhljómsveitanna eða atvinnudanshópanna enda margt fleira í lífinu, en þau sem eiga þangað erindi þurfa að eiga séns á að komast þangað.

 

Rosalega er ég glöð sjálfrar mín vegna að bæði Hannah og Felicia fóru í dansskóla og svo hið frábæra Spinn danskompaní! Hugurinn hvarflar til aðgengis barna að listnámi og þá tónlistarskólanum mínum. Menntun fyrir öll er markmið sem unnið er að hörðum höndum í landinu. Því fastar sem við leggjumst á árar, öll, því betra. Líka ég sjálf - ég á það alveg til að vera með sofandahátt og ekki að pæla í öllu. Aðgengi að Tónlistarskólanum á Akureyri er gott, því hann býr í nýlegu húsi. Það er snilld. Með smá óheppni eða klaufaskap hefði tónlistarskólinn getað lent í gamalli byggingu sem væri kannski yndisleg að öllu leyti nema því að þar væri mjög dýrt að búa til aðgengi fyrir fatlaða. Sem hefði þá getað tekið fjölda ára. Á meðan hefði enginn komist í hjólastól í tónó. Það hefði verið fáránlegt, en það hefði getað gerst. Allt er ekki alltaf í lagi alls staðar, þó við óskum þess að svo sé.

 

Það er fyrir heppni og byggingarstaðla að ég kenni við tónlistarskóla sem öll komast inn í, þ.e. bygginguna. Sem er frumskilyrði fyrir aðgengi að tónlistarnámi. Kassarnir sem við flokkum okkur sjálf í eru ágætir að því leyti að við notum þá til að taka tillit til mismunandi hópa, og aðlaga okkur eins og við getum hvert að öðru. Kassarnir þurfa ekki að vera fangelsi. Þeir eru áhald, notum þá á snjallan hátt. Til dæmis með því að setja lyftur í tónlistarskóla, svo míkródæmi sé tekið.

 

Ef við komum fram við okkur sjálf eins og manneskju getum við komið fram við hin eins og manneskjur. Hjálpast að og haft gaman saman. Þetta er bara kommon sens. Kannski var dansinn um það? Takk MAk fyrir færa Akureyringum Hönnuh Feliciu, takk Stebbi fyrir að minna mig á það í hádeginu að danssýningin yrði um kvöldið. Takk dansarar, danshöfundur og öll sem komuð að sýningunni fyrir besta dans í heimi.

 

Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir