Fara í efni

Sígilda Síðdegið hafið

Sígilda Síðdegið hafið

Kennarar tónlistarskólans bralla margt snjallt. Með viðburðaröðinni Sígild Síðdegi langar okkur að deila með okkur af þeirri gróskumiklu starfsemi, bæði innan og utan skólans.

 

Petrea Óskarsdóttir, þverflautukennari við TónAk, er mjög ötull flytjandi kammer- og nútímatónlistar, og stóð nýverið að tónlistarhátíðinni WindWorks í Reykjavík ásamt fleirum. Þar frumflutti hún meðal annars verkið Shimmer of light fyrir einleikspikkólóflautu og rafhljóð eftir Sunnu Friðjónsdóttur á dúótónleikum sem hún hélt ásamt Michael Weaver, klarinettu- og saxófónkennara TónAk.

 

Þau Michael vildu leyfa tónlistarskólanum og Akureyringum að njóta afrasksturs vinnunnar og héldu tónleika á Minjasafninu á Akureyri undir merkjum skólans þann 20. nóvember síðastliðinn, með Norðurlandsfrumflutningi hins nýja tónverks, en Sunna er uppalin á Akureyri. Einnig léku þau verk eftir H. Villa-Lobos, E. Krenek og D. Dorff

 

Frá því er skemmst að segja að tónleikarnir tókust afbragðsvel og voru vel sóttir. Tónlistarskólinn fagnar afar ánægjulegu samstarfi við Minjasafnið, frábæru framtaki kennaranna og fyrstu tónleikum Sígilda Síðdeginsins!