Fara í efni

Tónleikaferð Strengjasveitar 2

Tónleikaferð Strengjasveitar 2

Strengjasveit 2 lék á tíu stöðum víðs vegar um Akureyri í apríl og maí, geri aðrir betur! Ævintýrið hófst um miðjan apríl þegar sveitin lék á Dvalarheimilinu Hlíð. Í lok dagskrár var fjöldasöngur og var vel tekið undir.

Í byrjun maí var svo leikið á leikskólunum Krógabóli og Klöppum einn daginn og næsta dag í Gilja- og Glerárskóla. Við tókum eftir því að yngri kynslóðin tók ekki jafn hraustlega undir í fjöldasöngnum. Ef til vill hefði þurft að kynna lögin betur og með meiri fyrirvara. Stefnt á að gera það næst.

Þá var komið að Vortónleikum Strengjasveita í Hömrum og markaði sá viðburður hálfleik þessarar tónleikatarnar. Tveimur dögum síðar var dálítill hápunktur þegar við sigldum í miðbæ Akureyrar, Hrísey og lékum fyrir börnin í leik- og grunnskólanum þar. Svo áttum við góða leikjastund í eynni þar sem okkur hljóp kapp í kinn í Brennó, Yfir og Landaparís.

Félagar í Strengjasveit 2 voru ekki af baki dottnir og enn var leikið í Brekku-, Oddeyrar- og að síðustu í Naustaskóla. Á þessum síðustu tónleikum gafst tækifæri að fá til liðs við okkur Eið Reykjalín Hjelm píanóleikara og Fríðu Björg Tómasdóttur trommuleikara þar sem þessir skólar höfðu píanó og trommusett til reiðu.

Félagar í Strengjasveit 2 árið 2023: Michael Máni Jensson, Roxanna Kittý Morales, Tamara Hanna Krajewska, Milan Delpoux-Glevarec á fiðlur, Arnór Kári Yngvason og Þórhildur Eva Helgadóttir á víólur og Emilía Ingibjörg Guðjónsdóttir og Hanna Lilja Arnarsdóttir á selló. Ásdís Arnardóttir stjórnandi færir foreldrum og einum afa sérstakar þakkir fyrir liðlegheit við að gera tónleikaferðina mögulega með skutli og að hlaupa í skarðið!