Una Haraldsdóttir heldur framhaldsprófstónleika

Una Haraldsdóttir orgelleikari heldur framhaldsprófstónleika sína í Akureyrarkirkju 12. maí kl. 16:00

Orgelið, sem stundum er kallað drottning hljóðfæranna, er flókið hljóðfæri þar sem leikið er með höndum, fótum, tám og hæl. Að öllu jöfnu liggur áralangt píanónám að baki áður en orgelnámið hefst. Það hefur þó ekki vafist fyrir Unu Haraldsdóttur sem heldur framhaldsprófstónleika á orgelið í Akureyrarkirkju aðeins 18 ára gömul laugardaginn 12. maí.

Una hefur verið nemandi við Tónlistarskólann á Akureyri til 11 ára. Í fyrstu einungis á píanó en síðustu sjö árin hefur hún verið í hálfu námi í orgelleik hjá Sigrúnu Mögnu Þórsteinsdóttur og um tíma Eyþóri Inga Jónssyni. Una lauk framhaldsprófi í píanóleik fyrir ári síðan og er fyrst til að ljúka tveimur framhaldsprófum frá Tónlistarskólanum á Akureyri. Hún er einnig fyrsti nemandinn sem lýkur framhaldsprófi á orgel frá skólanum og að því best er vitað fyrsta stúlkan sem lýkur framhaldsprófi á orgel á landinu.

Efnisskráin er fjölbreytt og verða flutt verk eftir Buxtehude, Franck, Bach, Corrette og Messiaen.

Allir velkomir og enginn aðgangseyrir.